Halla Sig­ný Kristjáns­dóttir, þing­maður Fram­sóknar­flokksins í vel­ferðar­nefnd, segir hvorki sam­stöðu um að skylda fólk í sótt­varnar­hús í nefndinni né í ríkis­stjórn.

Þetta kemur fram í Face­book færslu Höllu þar sem hún skorar á Svan­dísi Svavars­dóttur að leggja fram bráða­birgða­laga­á­kvæði sem tryggir til­lögum sótt­varna­læknis laga­stoð. Hún segir það nauð­syn­legt til að verja líf og sam­fé­lag lands­manna.

Fyrr í mánuðinum komst Héraðs­dómur Reykja­víkur að þeirri niður­stöðu að ekki væri laga­stoð fyrir reglu­gerð ráð­herra um skyldu­dvöl fólks frá á­hættu­svæðum í sótt­varnar­húsi. Halla segir mikil­vægt að sótt­varna­læknir hafi þá laga­stoð sem hann telur mikil­væga.

„Í gegnum þennan far­aldur höfum við fylgt eftir ráð­leggingum sótt­varna­yfir­valda með eftir­tektar­verðum árangri og því er mikil­vægt að sótt­varna­læknir hafi þær laga­stoðir fyrir þeim að­gerðum sem hann telur mikil­vægar til að tryggja líf og heilsu okkar. Það er því okkar lög­gjafans að tryggja þessa laga­stoð, svo lengi sem við gætum meðal­hófs,“ skrifar Halla Sig­ný.

„Því skora ég á Svan­dísi Svars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra að leggja fram bráða­birgðar laga­á­kvæði sem nær utan um til­lögur sótt­varnar­læknis til að verja líf okkar og sam­fé­lag og tryggir okkur frelsi til at­hafna. Til­gangurinn helgar meðalið!“