Ákvörðun grænlenskra stjórnvalda um að auka kvóta fyrir veiðar á náhvölum er vís til þess að sverta orðspor landsins enda sé um einstakar skepnur að ræða sem vernda eigi en ekki veiða.

Þetta segir Mads Peter Heide-Jørgensen, prófessor og yfirmaður spendýra og fugladeildar grænlensku náttúrufræðistofnunarinnar og meðlimur vísindaráðs Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO).

Ráðið er samstarfsvettvangur Grænlands, Færeyja, Noregs og Íslands og veitir stjórnvöldum ráðgjöf um málefni sjávarspendýra. Það hefur ítrekað lagst gegn því að kvóti sé veittur fyrir veiðar á náhvölum. Samkvæmt því er ástand stofnsins alvarlegt og á sumum stöðum sé fjöldi dýra búinn að dragast mjög saman á undanförnum árum.

Fréttablaðið/Getty

Stjórnvöld og veiðimenn á Grænlandi hafa lengi deilt um skynsemi veiða á náhvölum við vísindafólk og dýraverndunarsinna um heim allan. Fyrr í mánuðinum ákváðu yfirvöld að auka kvótann á tveimur veiðisvæðum í suðausturhluta landsins, kringum þorpin Ittoqqortoormiit og Tasiilaq.

Á fyrra svæðinu jókst kvótinn úr 29 í 35 og á því síðara úr 5 í 15. Árin 2019 og 2020 voru veiddir samtals 134 náhvalir við strandir Grænlands, þvert gegn ráðleggingum vísindafólks.

„Ein helsta ástæðan fyrir þessu er að við viljum bæta lífsskilyrði og sjálfbærni í mataröflun á ákveðnum svæðum þar sem atvinnutækifæri eru af skornum skammti. Við höfum metið það svo að við þurfum að gera þetta núna, þar sem veiðimenn hafa lítið að veiða,“ sagði Aqqaluaq B. Egede hjá grænlensku landstjórninni er tilkynnt var um aukningu kvótans.

„Grænland eyðileggur orðspor sitt með því að leyfa veiðar á náhvölum, eftir að landstjórnin jók kvótann um miðjan október í Ittoqqortoormiit og Tasiilaq. Sú staðreynd að landsstjórnin heimili veiðimönnum að veiða náhvali í suðausturhluta Grænlands er þvert á ráðleggingar NAMMCO,“ segir Heide-Jørgensen í samtali við grænlenska dagblaðið Sermitsiaq.