Atvinnurekendur í ferðaþjónustunni eru sammála um að mannekla í starfsgeiranum sé vandamál sem gangi hönd í hönd við húsnæðisvandann á landinu.

„Nú þegar við þurfum að fá fleira af erlendu starfsfólki inn en fyrir faraldur þá verður húsnæðisskorturinn enn meira vandamál,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. „Húsnæðisskorturinn er farinn að hamla atvinnuþróun á ýmsum svæðum á landinu alveg verulega.“

Kristófer Oliversson, formaður FHG - fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, tekur í sama streng.

„Þetta verður alltaf svolítill vítahringur því þegar ferðaþjónustan fer í gang fer Airbnb líka á fullt og sogar upp húsnæðið. Þá er ekki pláss fyrir heilsársstarfsemi og uppbyggingu þessara kjölfestu­fyrir­tækja sem hótelin eru í hverju héraði. Skortur á húsnæði hægir á allri uppbyggingu í greininni,“ segir Kristófer.

Kristófer Oliversson, formaður FHG - fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Jóhannes og Kristófer segja mannekluna sumpart vera vegna eftirkasta kórónaveirufaraldursins. Kristófer segir að þróun mála sé að mjakast í rétta átt en telur jafnframt að það ætti að gera fyrirtækjum auðveldara að ráða til sín ungt fólk til starfa.

„Þessi markaður hefur verið eyðilagður, bæði með reglugerðum og með kjarasamningum sem eru þannig að það er of lítill launamunur á þessu unga fólki, sem er í raun að læra að vinna, og hinu eldra,“ segir Kristófer.