Sigrún Guðmundsdóttir, héraðsdómari hefur fallist á andmæli setts ríkislögmanns við því að Erla Bolladóttir leiði fyrrverandi lögreglumenn sem rannsökuðu hvarf Geirfinns Einarssonar, sem vitni í dómsmáli sínu gegn íslenska ríkinu.

Kröfu Erlu Bolladóttur um að rannsakendurnir yrðu kvaddir fyrir dóm var hafnað í morgun.

Í dómsúrskurði sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun var hafnað kröfu Erlu um að rannsakendurnir yrðu kvaddir fyrir dóm sem vitni.

Í málinu fer Erla Bolladóttir fram á að niðurstaða endurupptökunefndar sem synjaði henni um endurupptöku á hennar þætti í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, verði felld úr gildi, en hún var dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir rangar sakargiftir á hendur Sigurbirni Eiríkssyni, Magnúsi Leópoldssyni og öðrum svonefndum Klúbbmönnum.

Erla Bolladóttir hefur barist fyrir endurupptöku í áratugi.

Upplýsa þurfi uppruna gruns sem féll á Klúbbmenn

Vitnin sem um ræðir eru annars vegar Valtýr Sigurðsson og Haukur Guðmundsson, sem fóru með rannsókn á hvarfi Geirfinns í Keflavík og hins vegar Örn Höskuldsson, fyrrverandi fulltrúi sakadómara í Reykjavík og tveir fyrrverandi rannsóknarlögreglumenn; Sigurbjörn Víðir Eggertsson og Eggert Bjarnason.

Munnlegur málflutningur fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku um hvort heimila ætti vitnaleiðslurnar.

Í málflutningi sínum sagði Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu að vitnin Valtýr og Haukur gætu upplýst hvað olli því að grunur um aðild að hvarfi Geirfinns var felldur á Magnús og Sigurbjörn á sínum tíma.

Meðal þess sem þeir tóku til rannsóknar á fyrstu dögunum eftir hvarf Geirfinns voru aðstæður umræddra manna. Þeir hefðu þannig fellt á þá grun sem varð uppspretta mikilla sögusagna í samfélaginu.

Hvarf Geirfinns Einarssonar var rætt á fundi lögreglu i Keflavík og Reykjavík, viku eftir hvarf hans. Fremst á myndinni er Haukur Guðmundsson, lögreglumaður og við hlið hans, Valtýr Sigurðsson. Á myndinni er einnig Magnús Eggertsson yfirlögregluþjónn.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Misræmi í framburðum um samtöl við Erlu

Þá sagði Ragnar að rannsakendurnir Örn, Sigurbjörn Víðir og Eggert hafi átt í verulegum samskiptum við Erlu eftir að hún losnaði úr gæsluvarðhaldi í lok árs 1975 og í byrjun árs 1976 bæði á heimili hennar og einnig í yfirheyrslum fyrir lögreglu.

Taldi Ragnar mikilvægt að fá upplýsingar hjá þeim um hvað fór fram í samtölum þeirra við Erlu á umræddum tíma og hvers vegna ekkert er til skráð um þau. Misræmi hafi verið í framburði þeirra fyrir dómi á sínum tíma.

Í ljósi þess að klúbbmenn voru handteknir skömmu eftir umræddar heimsóknir þeirra og samtöl við Erlu skipti máli að upplýsa hvernig staðið var að þessum heimsóknum, hver tilgangur þeirra hafi verið og hvers vegna ekkert hafi verið bókað um þær.

Ragnar lagði áherslu á að engin önnur leið sé til að afla sönnunargagna um ofangreint nema með skýrslum af umræddum aðilum.

Blaðamannafundur var haldinn í Borgartúni þegar lögreglan í Reykjavík taldi sig hafa upplýst Geirfinnsmálið. Örn Höskuldsson er lengst til vinstri á myndinni.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Sönnunarfærsla takmörkuð í ógildingarmálum

Andri Árnason, setti ríkislögmaður byggði andmæli sín við umræddar vitnaleiðslur á því að um ógildingarmál sé að ræða og ekki sé venja að vitni séu leidd í slíkum málum.

„Þetta er eins rangt og getur verið. Þessi regla er ekki til í íslenskum rétti og hefur aldrei verið,“ sagði Ragnar hins vegar og vísaði til dómafordæma í slíkum málum gegn ríkinu, þar sem vitni voru leidd án þess að andmælum væri hreift af hans ríkisins.

„Þessi regla er ekki til í íslenskum rétti og hefur aldrei verið.“

Hann lagði áherslu á að Erla hefði lögum samkvæmt forræði á því hvernig hún hagi sönnunarfærslu um umdeild atriði í málinu. Á grundvelli undantekningar á málsforræðisreglunni geti dómari gripið inn í sé um að ræða bersýnilega tilefnislausa gagnaöflun sem bæði tefji mál og auki kostnað. Um hvorugt sé að ræða í þessu tilviki heldur þvert á móti.

Ragnar gagnrýndi hversu langt settur ríkislögmaður hafi gengið til að koma í veg fyrir að málið verði upplýst og héraðsdómur fái allar nauðsynlegar upplýsingar til að geta kveðið upp réttan dóm í málinu. Með framgangi sínum hafi settur ríkislögmaður teflt í hættu rétti Erlu til að njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

„Þetta gera þeir því miður ekki heldur telja talsmenn ríkisins sér skylt að koma í veg fyrir að gögn komist fyrir dómstólana og leggja megináherslu á að málum verði vísað frá dómi.“

Ragnari varð tíðrætt um framgöngu íslenska ríkisins almennt í málum borgara sem telja á sér brotið og „hversu langt talsmenn ríkisins ganga í baráttu sinni gegn borgurum landsins,“ eins og hann orðaði það fyrir dómi.

Þá lýsti hann því viðhorfi sínu að ríkislögmaður og fyrirsvarsmenn ríkisins ættu frekar að stuðla að því í málflutningi sínum að hið rétta komi fram til að dómar verði eins réttir og dómar geti orðið.

„Þetta gera þeir því miður ekki heldur telja talsmenn ríkisins sér skylt að koma í veg fyrir að gögn komist fyrir dómstólana, leggja megináherslu á að málum verði vísað frá dómi og telja sig mikla hæfileikamenn á sviði réttarfars sem geti þar af leiðandi komið í veg fyrir að dómarar kveði upp efnisdóma. Þetta er alkunna,“ sagði Ragnar.

Ekki liggur fyrir hvort úrskurðurinn sem kveðinn var upp í morgun, verður kærður til Landsréttar.