Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari í Síðuskóla á Akureyri, segir skelfilegt ef Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, fái umboð til að leiða félagið áfram.

„Ég teldi það hneyksli,“ segir Helga Dögg. „Grunnskólakennarar starfa gegn einelti um allt land. Þeir vita hvaða afleiðingar geta hlotist af einelti fyrir þolanda. Ég hef ekki fengið neina staðfestingu á að úrvinnsla sé í gangi í þessu eineltismáli. Það væri skelfilegt ef þessi kona verður aftur kosin formaður,“ segir Helga Dögg.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá hefur fallið úrskurður þar sem Þorgerður er talin hafa beitt starfsmann einelti. Niðurstaðan er samkvæmt heimildum blaðsins mjög skýr. Ragnar Þór Pétursson hjá KÍ hefur staðfest málið.

Á framboðsfundi félagsins í vikunni var eineltismálið rætt. Þar kom fram að Þorgerður lítur svo á að ekki sé hennar að gera frekar hreint fyrir sínum dyrum.

„Því er ég algjörlega ósammála og ég velti fyrir mér hvort stjórn Félags grunnskólakennara hefur vitað af þessu máli og bara þagað. Ef þau vissu ekki af málinu en vita þetta nú, af hverju heyrist þá ekkert frá stjórninni? Við sem samfélag getum ekki sætt okkur við ef þagga á málið niður,“ segir Helga Dögg sem situr í svæðadeild BKME, Bandalagi kennara á Norðurlandi.

„Svo er annað sem ég er hugsi yfir,“ bætir Helga Dögg við. „Hvað verður um traust og trúnað foreldra grunnskólabarna ef formaður grunnskólakennara gengur svona fram sjálf? Bíður traustið ekki hnekki? Er traustið í húfi? Ég er mjög uggandi yfir þessari stöðu.“

Konan sem varð fyrir eineltinu vill ekki koma fram undir nafni en Fréttablaðið hefur átt samtöl við þolandann. Bendir margt til að Þorgerður hafi ekki beðist afsökunar eftir að úrskurður óháðs aðila féll um að samskipti hennar við starfsmanninn hafi verið neikvæð og niðurlægjandi.

Þorgerður vildi ekki bregðast við ummælum Helgu Daggar eða annarri gagnrýni. Hún segist hafa gætt hagsmuna félagsmanna og leggi stolt störf sín í dóm kjósenda í formannsbaráttunni.

Kosning um nýjan formann hefst 2. maí næstkomandi. Fram­bjóð­endur til formannsstöðunnar eru auk Þorgerðar þau Mjöll Matthías­dóttir og Pétur V. Georgs­son.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara