Hanna Katrín Frið­riks­son þing­kona Við­reisnar mælti í gær á þingi fyrir þing­máli sínu sem er ætlað að gera það refsi­vert að neyða ein­stak­ling til að bæla eða reyna að breyta kyn­hneigð sinni, kyn­vitund eða kyn­tjáningu.

Hanna Katrín segir á Face­book-síðu sinni að um sé að ræða breytinga á kafla al­mennra hegningar­laga sem fjallar um brot gegn frjáls­ræði fólks og með breytingunni verði það gert refsi­vert „að láta ein­stak­ling undir­gangast svo­kallaða bælingar­með­ferð með nauðung, blekkingum eða hótunum, að láta barn undir­gangast slíka með­ferð hér á landi eða er­lendis sem og að fram­kvæma bælingar­með­ferðir, hvetja til eða þiggja fé vegna þeirra.“

Hanna Katrín segir í færslu sinni um málið að það hafi margir brugðist við málinu og jafn­vel gefið í skyn að það sé ó­þarfi. Því er hún mjög ó­sam­mála.

Fólk skynjar bakslagið

„Ég skil vel að fólk sem ekki þekkir til eigi erfitt með að trúa því að svona skelfi­legt at­hæfi við­gangist hér á Ís­landi. Þar er þó skautað yfir aðal­at­riði málsins sem er að mis­beiting af þessu tagi, svo­kallaðar bælingar­með­ferðir, varða ekki við lög núna. Í þeim kafla hegningar­laga sem fjallar um brot gegn frjáls­ræði fólks, og ég vísaði til hér framar, er listi yfir sak­næma verknaði. Listinn er langur en ekki tæmandi og eitt af því sem hegningar­lögin ná ekki til eins og er, er bælingar­með­ferðir á hin­segin fólki. Það er tíma­bært að stíga skrefið til fulls, færa okkur til nú­tímans og festa í lög hér bann við svona al­var­legri að­för að frelsi og heilsu hin­segin fólks,“ segir Hanna Katrín.

Hún bendir á að lokum að frá því að málið var fyrst lagt fram hafi þróun mála verið svo að rétt sé að tala um bak­slag í mál­efnum hin­segin­fólks.

„Ég segi „rétt“ því eins vont og mér þykir að nota það orð í sam­hengi við stöðu hin­segin fólks hér á landi – þá þykir mér enn verra ef við skellum skolla­eyrum við var­úðar­orðum þeirra sem best til þekkja hér – og látum eins og það sé ein­hver ó­hemju­skapur í þeim sem benda á bak­slagið. Mörg okkar sem til­heyrum hin­segin­sam­fé­laginu höfum fundið fyrir auknum ótta í kjöl­far fregna sem vega að til­veru­rétti okkar,“ segir Hanna Katrín í færslunni hér að neðan.