Hanna Katrín Friðriksson þingkona Viðreisnar mælti í gær á þingi fyrir þingmáli sínu sem er ætlað að gera það refsivert að neyða einstakling til að bæla eða reyna að breyta kynhneigð sinni, kynvitund eða kyntjáningu.
Hanna Katrín segir á Facebook-síðu sinni að um sé að ræða breytinga á kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um brot gegn frjálsræði fólks og með breytingunni verði það gert refsivert „að láta einstakling undirgangast svokallaða bælingarmeðferð með nauðung, blekkingum eða hótunum, að láta barn undirgangast slíka meðferð hér á landi eða erlendis sem og að framkvæma bælingarmeðferðir, hvetja til eða þiggja fé vegna þeirra.“
Hanna Katrín segir í færslu sinni um málið að það hafi margir brugðist við málinu og jafnvel gefið í skyn að það sé óþarfi. Því er hún mjög ósammála.
Fólk skynjar bakslagið
„Ég skil vel að fólk sem ekki þekkir til eigi erfitt með að trúa því að svona skelfilegt athæfi viðgangist hér á Íslandi. Þar er þó skautað yfir aðalatriði málsins sem er að misbeiting af þessu tagi, svokallaðar bælingarmeðferðir, varða ekki við lög núna. Í þeim kafla hegningarlaga sem fjallar um brot gegn frjálsræði fólks, og ég vísaði til hér framar, er listi yfir saknæma verknaði. Listinn er langur en ekki tæmandi og eitt af því sem hegningarlögin ná ekki til eins og er, er bælingarmeðferðir á hinsegin fólki. Það er tímabært að stíga skrefið til fulls, færa okkur til nútímans og festa í lög hér bann við svona alvarlegri aðför að frelsi og heilsu hinsegin fólks,“ segir Hanna Katrín.
Hún bendir á að lokum að frá því að málið var fyrst lagt fram hafi þróun mála verið svo að rétt sé að tala um bakslag í málefnum hinseginfólks.
„Ég segi „rétt“ því eins vont og mér þykir að nota það orð í samhengi við stöðu hinsegin fólks hér á landi – þá þykir mér enn verra ef við skellum skollaeyrum við varúðarorðum þeirra sem best til þekkja hér – og látum eins og það sé einhver óhemjuskapur í þeim sem benda á bakslagið. Mörg okkar sem tilheyrum hinseginsamfélaginu höfum fundið fyrir auknum ótta í kjölfar fregna sem vega að tilverurétti okkar,“ segir Hanna Katrín í færslunni hér að neðan.