Deildar meiningar eru um áhrif þess að Heimkaup hófu í vikunni netsölu á áfengi, fyrst stórmarkaða, og aka áfengi heim til kaupenda. Formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum hefur lýst áfengissöluna ólöglega og kært til lögreglu. Danskt fyrirtæki, Heimkaup ApS, selur áfengið, því annað myndi brjóta gegn einokun ÁTVR á vínsölu. Dótturfélag innanlands dreifir vörunni.

„Tvímælalaust mun þetta skref auka áfengisvandann, aukið aðgengi eykur fíknvanda, það er sannað með vísindalegum rannsóknum og það vita yfirvöld hér á landi. Þetta er gífurleg stefnubreyting hjá ríkisvaldinu, eiginlega glórulaus,“ segir Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ.

Anna Hildur segir að sú spurning vakni hvað ríkið ætli að gera þegar vandinn eykst.

„Fyrir fólkið okkar sem á við vanda að stríða kallar það á ýmsa snúninga að þurfa að fara í ríkið. Kannski þarf að panta leigubíl, kannski skammast fólk sín og fer í fleiri en eitt ríki. En þarna fær fólk heimsent áfengi, einn tveir og þrír. Þetta auðveldar áfengisinnkaup og afleiðingar geta orðið mjög slæmar,“ segir Anna Hildur.

Drykkjuvandi einangraðra eldri borgara var til umfjöllunar í Fréttablaðinu í vikunni. Dagdrykkja þeirra hefur tvöfaldast undanfarið þótt vel hafi gefist að setja skorður við áfengissölu, að sögn Önnu Hildar. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, áætlar að 20 prósent Íslendinga séu alkóhólistar.

„Við höfum verið ákveðin fyrirmynd í áfengismálum,“ segir Anna Hildur. „Það hefur hjálpað okkur hvað aðgengi að áfengi er takmarkað.“

Pálmi Guðmundsson hjá Heimkaupum segir að ríkið hafi sjálft aukið aðgengi að áfengi með fleiri búðum og lengri afgreiðslutíma. Hann segir fyrirtækið afhenda áfengið frá klukkan átta á morgnana til átta á kvöldin, alla daga vikunnar. Viðskiptin hafi farið vel af stað og góðvild meðal viðskiptavina.

Viðskipti með áfengi hjá Heimkaupum eru sögð hafa farið vel af stað.
Fréttablaðið/Valli

„Við fylgjum regluverki, allt er löglegt. Það er fullt af fyrirtækjum sem eru að gera svipaða hluti og við,“ segir Pálmi og nefnir sem dæmi Amazon og Póstinn.

Pálmi segir um gagnrýni SÁÁ að eftirlitið hjá Heimkaupum sé strangara en hjá ÁTVR þar sem enginn fái afgreiðslu hjá Heimkaupum án þess að sýna skilríki.
Fbl_Megin: „Við getum ekki tjáð okkur um neysluvenjur fólks en ef eitthvað þá erum við að gera viðskiptavinum erfiðara fyrir en ÁTVR.“

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir fráleitt fyrir íslenska neytendur að innlendir aðilar geti ekki boðið upp á sömu þjónustu og erlend fyrirtæki. Heimkaup sé að reyna að brúa bil.

„Vandinn er sá að lögin eru ekki í takti við nútímann og þess vegna hefði verið farsælt skref að samþykkja frumvarp Hildar Sverrisdóttur í vor, eyða óvissu sem er til staðar,“ segir Óli Björn.

Með því vísar Óli Björn til þess að áður en Heimkaup hófu netsöluna áttu Íslendingar kost á áfengiskaupum frá erlendum aðilum í gegnum Internetið. Löggjafanum beri að tryggja jafnræði.