Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir alvarlega stöðu ríkja í heimilislækningum um þessar mundir, þrátt fyrir tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti varðandi metaðsókn í sérnám í heimilislækningum.

Að sögn Steinunnar er veflausnin Heilsuvera enn einn álagsþáttur í verkefnum heimilislækna, sem hún segir búa við algjört ofálag. „Heilsuveran hefur verið að sliga þau, alveg gersamlega. Það er svo merkilegt,“ segir Steinunn. „Hún átti að draga úr símtölum og komum á heilsugæsluna en hún varð bara hrein viðbót. Símtölum og komum hefur bara fjölgað á sama tíma og Heilsuveruskilaboð hafa bara algjörlega sprungið út.

Núna er virkilega þungt hjá þeim í heilsugæslunni,“ segir Steinunn. „Ég veit að þau horfa mikið til næstu þriggja, fjögurra ára þegar hagurinn vænkast hjá þeim,“ segir formaðurinn og vísar til gagna frá ráðuneyti sem benda til þess að 57 muni útskrifast úr sérnámi í heimilislækningum á næstu þremur árum.

Steinunn segir fjölda nýrra verkefna hafa verið bætt á heilsugæsluna undanfarið án þess að gert sé ráð fyrir mannskap. „Þau upplifa mikið ofálag. Svo er gríðarlegur fjöldi Íslendinga án heimilislæknis og því fólki þarf líka að sinna,“ segir Steinunn. Hún segir Heilsuveru ekki spara neitt á móti og vera rosalega stórt aukaverkefni.

Heilsuveran hefur verið að sliga þau, alveg gersamlega. Það er svo merkilegt.

Vefur Heilsuveru er samstarfsverkefni TM Software, Embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hann var opnaður árið 2014 og fékk Íslensku vefverðlaunin sama ár sem besti íslenski vefurinn.

Ingi Steinar Ingason, sviðsstjóri hjá Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna, vinnur að tæknihlið Heilsuveru. Hann kveðst ekki sammála orðum formanns Læknafélagsins. „Þetta er ekki alveg rétt. Heilsugæslan er með tölfræði um þetta. Ég var á ársfundi heilsugæslunnar 2019. Þá var klár munur og þegar Heilsuverusamskiptum fjölgaði fækkaði símtölum. Þetta var búið að vera trend í nokkur ár,“ segir Ingi.

Að sögn Inga eru ýmsir hlutir í umhverfinu í dag sem valda auknu álagi á Heilsuveru. „Það eru fleiri tugir þúsunda sem hafa fengið Covid og eru með langvarandi kvilla. Í Covid var alltaf verið að segja fólki: Við minnstu einkenni, hafðu þá samband við okkur. Ekki koma en hafðu samband í Heilsuveru. Komdu á netspjallið,“ segir hann. „Í þrjú ár var verið að segja fólki að fara í þennan farveg með þetta og það voru allir voða glaðir með það að fá ekki fólkið inn á stöðvarnar. Síðan fer allt af stað aftur og stöðvarnar eru opnaðar aftur. En það vantar fleiri heimilislækna, það er eitthvað sem allir eru sammála um,“ segir Ingi.

Að sögn Inga þarf einnig að taka til greina kynslóðabilið. „Það er ný kynslóð af fólki sem er vant því að nota rafrænar lausnir og það er fólk sem vill ekki hringja,“ segir hann. „Það vill netspjall í stað þess að hringja í einhvern og útskýra hlutina. Ef það væri lokað á allar Heilsuverufyrirspurnir væri þessi hópur í vondum málum,“ segir teymisstjórinn.