„Ég veit ekki til þess að pælingar séu um þetta hérlendis,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, aðspurður um hvort svokallaðir heilbrigðisdrónar séu til skoðunar hérlendis.
Danskur heilbrigðisdróni flaug jómfrúarflug sitt í gær en hann á með tímanum að flytja blóðsýni, lyf og lækningatæki. Dróninn flaug fjörutíu mínútna flug frá
Svendborg sjúkrahúsinu til eyjunnar Ærø.
Óskar segist geta ímyndað sér að heilbrigðisdrónar kæmu að góðum notum hérlendis. „Þú getur ímyndað þér hvernig þetta hefði getað verið í Covid. Það var mjög erfitt að flytja sýni sums staðar frá landsbyggðinni,“ segir Óskar.
Hann bendir á að þetta gæti einnig verið sparnaðarleið, þar sem bílar hafa oft þurft að keyra sýni frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og það geti verið dýrt.
„Sem fyrrverandi landsbyggðarlæknir þá sé ég alveg fyrir mér hvernig þetta getur nýst, en auðvitað líka í borginni því hún er eins og hún er,“ segir Óskar. Hann segir þetta vera flotta framtíðarsýn.
Aðspurður hvort honum finnist að skoða eigi þetta frekar hérlendis segist hann ekki sjá neitt neikvætt við það. „Mér finnst þetta sannarlega eitthvað sem gæti nýst í dreifbýlu landi þar sem samgöngurnar geta verið þannig að það er ekki alltaf auðvelt að fara á milli staða,“ segir hann.
