Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem grunaður er um að hafa skotið karl og konu í Grafarholti í febrúar á þessu ári. Úrskurðir þessir veita innsýn í málið.

Málið vakti talsverða athygli, en maðurinn er ásamt öðrum manni grunaður um að hleypa af tveimur skotum að karli og konu og hæft, annars vegar í læri karlsins og hins vegar í kvið konunnar, sem þurfti að gangast undir aðgerð til að fjarlægja byssukúluna. Samkvæmt læknisvottorði var um lífshótandi áverka að ræða.

Ítrekað hótað fyrrverandi kærustu fyrir árásina

Í úrskurði Héraðsdóms kemur fram að rannsókn lögreglu hafi fljótlega beinst að manninum og félaga hans. Þá segir að samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi maðurinn ítrekað hótað konunni lífláti og líkamsmeiðingum og að þau hafi verið fyrrverandi kærustupar.

Þá kemur fram að gögn úr síma mannsins sýni að hann hafi verið á vettvangi þegar árásin átti sér stað. Auk þess eiga skilaboð og efni úr síma hans að benda sterklega til aðildar hans að málinu.

Segir hann hafa kallað út um gluggan og hleypt af

Maðurinn neitar þó sök og neitar að tjá sig um það sem átti sér stað umrædda nótt. Hinn maðurinn neitaði í fyrstu að tjá sig um málið, en í úrskurðinum segir að honum hafi snúist hugur og hann komið hreint fram og lýst atvikum næturinnar í skýrslutöku hjá lögreglu.

Hann segir manninn hafa beðið sig um að skutla sér á vettvang og þegar þangað var komið hafi þeir orðið varir við konuna og karlinn. Þá hafi maðurinn kallað til konunnar og því næst skotið úr byssu í átt til þeirra. Í kjölfarið hafi þeir keyrt á brott.

Þá segir að púðurleyfarannsókn lögreglu styðji við þetta, en hún bendi til þess að skotið hafi verið úr byssu út um farþegaglugga bifreiðarinnar. Auk þess þá fundust sýni af hönd kærða mögulegar púðurleyfar.

Þarf að afplána eftirstöðvar fyrri dóms

Úrskurðir Landsréttar og héraðsdóms ákvörðuðu að maðurinn þyrfti að afplána 900 daga eftirstöðvar refsingar af öðrum dómi sem hann fékk árið 2018.

Um var að ræða fimm ára dóm, en hann hafð afplánað þrjú þeirra og í kjölfarið veitt reynslulausn. Í úrskurði Landsréttar kemur fram að sterkur grunur sé um að maðurinn hafi framið nýtt brot er varðað geti sex ára fangelsi og þannig „gróflega“ rofið skilyrði reynslulausnar sinnar.