„Það er mikið í tísku að kaupa notuð ungbarnarúm og taka af þeim hliðina og binda eða staðsetja upp við fullorðinsrúmið en slíkt er stórvarasamt og rekja má tvö nýleg dauðsföll á Norðurlöndum til þessa,“ segir Herdís Storgaard, hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður hjá Miðstöð slysavarna barna (MSB).

Herdís fer fyrir námskeiðum um slysavarnir barna hjá MSB þar sem foreldrar geta fengið ókeypis fræðslu um öryggi barna á heimilinu og í bílnum. Þar fjallar hún meðal annars um öryggi í svefnumhverfi barna.

„Svefnumhverfi barna er mjög háð tískusveiflum hverju sinni og fyrir nokkrum árum fór að bera á því að farið var að mæla með því að best væri fyrir ungbörn og brjóstagjöf að hafa þau sofandi á milli foreldra sinna í þeirra rúmi,“ segir Herdís. Ráðleggingarnar segir hún að mestu hafa komið frá foreldrahópum og áhugahópum um brjóstagjöf. „Mjög fljótlega fór þetta að verða hinn heilagi sannleikur þvert á ráðleggingar aðila eins og Bandaríska barnalæknafélagsins sem er leiðandi í rannsóknum á heimsvísu á öryggi í svefnumhverfi ungbarna,“ bætir hún við.

„Það sem gerðist á sama tíma var að framleiðendur fóru að framleiða svokallað ungbarnahreiður og urðu vinsældir þess gífurlegar ekki bara hér á landi heldur víðs vegar annars staðar,“ segir Herdís.

„Það er mjög mikilvægt að benda á það að engar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna að notkun hreiðurs veiti ungbarninu öryggiskennd. Þau koma heldur ekki í veg fyrir að foreldrar óvart leggist yfir barnið þar sem búnaðurinn er mjúkur og ver ekki barnið gegn því,“ segir Herdís. Til að hægt sé að staðfesta öryggið þurfi að vera til staðall sem innihaldi allar upplýsingar um hættur og hvernig það skuli prófað.

„Þegar þessir prófanir liggja fyrir er fyrst hægt að treysta öryggi þeirra.“ Herdís segir að með því að sofa með barn í rúmi fullorðinna sé beinlínis verið að stefna barninu í hættu. Margir telji mestu hættuna felast í því að foreldrar leggist yfir barnið en að svo sé ekki, undir tveimur prósentum barna látist á þann hátt í rúmi fullorðna.

„Mesta hættan er rúmið. Dýnur sem framleiddar eru í rúm fullorðinna eru með ýmsum þægindum sem gerir yfirborð dýnunnar mjúkt og ekki eru gerðar kröfur um öndunarpróf á dýnum fullorðinna en það er afar mikið öryggisatriði sem gerð er krafa um í staðli um dýnur í ungbarnarúm og vöggur,“ segir Herdís. Þá segir hún að mælt sé með því að börn undir eins árs aldri noti ekki kodda því í honum felist mikil hætta á köfnun og þá séu fullorðinssængur einnig hættulegar börnum.

Herdís segir mikilvægt að fara eftir öryggisstöðlum sem til eru. Þá sé mikilvægt að fylgja stöðlum þegar gamlir hlutir eru nýttir. „Það er til dæmis mikið í tísku núna að nýta gömul barnarúm,“ segir Herdís. „Dauðaslys hafa orðið í eldri rúmum þegar höfuðið festist og við það þrýstist andlit barnsins niður í dýnuna sem varð þess valdandi að barnið kafnaði.“

Herdís Storgaard
Mynd/Sebastian Storgaard