Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, var meðal gesta í Silfrinu í dag og ræddi þar um dreifingu áróðurs og upplýsingaóreiðu í tengslum við innrásina í Úkraínu sem nú hefur staðið yfir í rúman mánuð.

„Það er búin að vera mikil upplýsingaóreiða,“ sagði Elfa Ýr í tengslum við innrásina. „Ég vil byrja á að tala um þetta í tengslum við Covid, því þá áttuðu menn sig á því hvað það var að koma mikill áróður frá Rússlandi. Það er í gangi upplýsingastríð sem á sér langan aðdraganda. Það er mikill áróður heima fyrir en líka mikill áróður og mikil upplýsingaóreiða sem er beint gegn öðrum löndum.“

Elfa Ýr segir að valdhafar hafi lært mikið af arabíska vorinu árið 2010 um það hvernig sé hægt að skapa og beita upplýsingaóreiðu.

„Það er verið að sá fræjum og búa til tortryggni á Vesturlöndum til þess að skapa ákveðinn óstöðugleika. Rússnesk stjórnvöld hafa líka séð að það er hægt að nota þetta til að styrkja öfl í ríkjum sem hafa viljað draga sig úr NATO eða Evrópusambandinu og svo framvegis. Þar kemur þessi tenging við hægriöfgaflokka í Evrópu. Við höfum séð fréttir af því að það er verið að setja pening í franska þjóðernisflokkinn, Le Pen og og þannig. Þetta er kannski ódýrari aðferð til að hafa áhrif. Sérstaklega hefur þetta sést í aðdraganda kosninga.“

Þá segir Elfa Ýr að þegar Rússar byrjuðu að dreifa áróðri eða upplýsingaóreiðu á Vesturlöndum hafi aðallega vakið athygli að ekki hafi verið staðið ýkja vel til verka.

„Eftir innlimun Krímskagans 2014, þá virkilega kom holskeflan yfir Evrópu svo eftir því var tekið. Það eru komnar upp tröllaverksmiðjur, þar sem fólk mætir í vinnuna á morgnana og fær línuna um það hvað það á að skrifa í kommentakerfum, hverju á að dreifa hverju sinni og svo framvegis. Þetta gengur úr á að sá fræjum efans, koma alltaf með nýjan sannleika. Það er gríðarlegt magn, þetta þarf að vera samfellt og það er ekki innbyrðis samfelldur sannleikur. Það á að rugla þannig að fólk sjái hætti að átta sig á því hvað er satt og missi trúna.“

Í skrifum sínum hefur Elfa áður talað um að á tíma Covid hafi geisað „staðleysufaraldur“ þar sem falsfréttum og rangfærslum um kórónuveiruna og bólusetningar væri dreift á ógnarhraða.

„Þetta var eitt af því sem var rætt á fundi Eystrasaltsríkjanna og Norðurlanda sem ég sótti ekki alls fyrir löngu. Þessir hópar og aðilar sem hafa verið að dreifa áróðri og staðleysu um bólusetningar eru helsta uppsprettan þar sem er verið að dreifa þessum rússneska áróðri. Það er alveg tenging þar á milli.“

Elfa Ýr segir að innanlands í Rússlandi hafi aðför að sjálfstæðum fjölmiðlum lengi verið yfirstandandi.

„Það er hægt að gera það með ýmsum hætti. Ekki veita leyfi eða taka leyfi af sjálfstæðum fjölmiðlum, fara í mál vegna brots gegn hegningarlögum eða skattalögum, gera þeim mjög erfitt fyrir.“

Hætta sé á því að með aðgerðunum í kringum Úkraínustríðið loki Rússar enn frekar á erlenda fjölmiðla og komi sér upp einhvers konar eldvegg eða innlendu interneti á borð við það sem til er í Kína. Elfa Ýr bendir á að tilteknir vestrænir miðlar á borð við Dagens Nyheter hafi á móti reynt að sporna við einangrun rússnesks fjölmiðlaumhverfis með því að birta fréttir á rússnesku og setja þær inn á Telegram, þar sem margir Rússar geta lesið þær. Jafnvel hafi rússneskumælandi fólk í Eystrasaltslöndunum verið hvatt til þess að hringja í Rússa og ræða við þá ef tök væru til þess.

Vestræn ríki hafa í auknum mæli gripið til eigin ritskoðunaraðgerða til þess að koma í veg fyrir dreifingu rússnesks áróðurs, meðal annars með því að láta banna dreifingu rússneskra ríkisfjölmiðla. „Það var ein af aðgerðum ESB að loka fyrir Spútnik og Russia Today. Svo fóru Bretar í að loka á RT í síðustu viku. Það er spurning hvernig það gengur því við erum búin að sjá að þessi áróður birtist í kínverskum miðlum í Evrópu í staðinn.“