Utanríkisráðherra Bretlands, Jeremy Hunt, segir að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu gæti orðið að engu ef að þingmenn Íhaldsflokksins sem er í meirihluta á breska þinginu samþykki ekki Brexit samning Theresu May, að því er fram kemur á vef BBC. Hann segir að andstæðingar Brexit hafi fengið byr undir báða vængi að undanförnu. 

Þingmenn munu kjósa um samninginn að nýju á þriðjudaginn en líkt og fram hefur komið var honum hafnað í janúar síðastliðnum. Var það að mestu leyti vegna áhyggja þingmanna um hið svokallaða „backstop ákvæði“ í málefnum N-Írlands en ákvæðið gerir ráð fyrir því að N-Írland haldi áfram að vera hluti af evrópska efnahagssvæðinu, að minnsta kosti tímabundið til að koma í veg fyrir að eiginleg landamæri verði sett upp á milli N-Írlands og Írlands.

Í umfjöllun BBC kemur fram að fátt bendi til þess að May hafi tekist að semja um breytingar á ákvæðinu við forsvarsmenn Evrópusambandsins síðan þá.

„Við eigum tækifæri á að yfirgefa sambandið þann 29. mars næstkomandi eða stuttu síðar. Það er mjög mikilvægt að við nýtum tækifærið vegna þess að þeir sem vilja stöðva Brexit hafa fengið byr undir báða vængi að undanförnu,“ segir ráðherrann meðal annars.

Hafni þingmennirnir samningi May á þriðjudag verður kosið um það hvort Bretland eigi að yfirgefa sambandið án samnings á miðvikudaginn. Verði því hafnað verður kosið um að seinka útgöngu landsins og þá er óljóst hvenær nákvæmlega Bretland mun yfirgefa sambandið.