„Mér finnst allt þetta óboðlegt,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is, spurður um þau ummæli sem þingmenn létu falla á leyniupptökum sem fjölmiðlar hafa birt. Bjarni segir aðspurður að að það sé mál hvers og eins þingmanns hvernig hann horfist í augu við gjörðir sínar – þar á meðal hvort þeim sé sætt á þingi áfram.

Hann sagði að samskipti á Alþingi yrðu að vera góð svo stofnunin gæti staðið undir hlutverki sínu og átt heilbrigð skoðanaskipti. „Þetta er ekki gott innlegg í það mikilvæga starf.“

Gunnar Bragi Sveinsson lýsti því yfir í umræddu samtali að hann ætti inni greiða hjá Bjarna Benediktssyni og Sjálfstæðisflokknum eftir að hafa skipað Geir H. Haarde sem sendiherra. Bjarni segir að hann telji sig ekki skulda nokkrum manni neitt í tengslum við skipan sendiherra. „Það er einfaldlega tóm þvæla sem er verið að tala um í þessum upptökum um það efni.“