Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar hyggst skila tveimur tillögum að viðbrögðum Alþingis vegna stöðunnar í Norðvesturkjördæmi eftir Alþingiskosningarnar í lok september. Þetta kemur fram á Vísi.
Hvorug leiðanna sem undirbúningsnefndin leggur til felur í sér að fyrri talningin í Norðvesturkjördæmi verði látin gilda. Annars vegar geti Alþingi samþykkt uppkosningu í kjördæminu eða að seinni talningin verði látin gilda.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingar og ein þeirra sem datt út af þingi við endurtalninguna, segir það grafalvarlegt mál ef Alþingi leggur blessun sína yfir niðurstöður endurtalningarinnar í Norðvesturkjördæmi.
„Það er alveg eðlilegt að það sé verið að kjósa um uppkosningu og tillögu nefndarinnar um það vegna þess er náttúrlega skýrt samkvæmt tveimur greinum í kosningalögum að það eru hin lagalegu og réttu viðbrögð - að fara í uppkosningu í viðkomandi kjördæmi ef vafi leikur á um talningu atkvæða, eins og raunin er,“ segir Rósa Björk.
Að sögn Rósu Bjarkar snýst kæra hennar einmitt um að uppkosning sé rétta leiðin í stöðunni.
„Nefndin hefði getað komist að þeirri niðurtsöðu að láta fyrstu tölur gilda. Í raun og veru þá eru minni vafatriði við fyrstu tölur heldur en að láta ólöglega endurtalningu gilda vegna þess að við það að samþykkja endurtalninguna þá er Alþingi um leið að leggja blessun sína yfir brot á kosningalögum - eins og sektargerð lögreglustjórans á Vesturlandi, með aðstoð ríkissaksóknara sýnir; að þarna hafi verið um lögbrot að ræða þar sem kjörstjórnameðlimir þurfi að greiða sektargerðir vegna lögbrotanna eða sitja í fangelsi,“ segir þingmaðurinn fyrrverandi.
„Og það er náttúrlega grafalvarlegt mál ef löggjafaraðilinn, Alþingi sjálft ætlar sér að legga blessun sína yfir ólögmæta endurtalningu,“ bætir Rósa Björk við.
„Þessi töf sem hefur verið viðhöfð í nefndinni verður ósjálfrátt til þess að uppkosning verður erfiðari í hugum þingmanna og sérsstaklega ríkisstjórnarinnar,“ segir Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, sem var inni á þingi miðað við fyrri talninguna en féll út við þá síðari.
„Þessar sjö eða átta vikur gætu reynst dýrkeyptar,“ heldur Karl Gauti áfram. Hann gagnrýnir undirbúningsnefndina fyrir sýndarmennsku með fullyrðingum um gagnsæi. „Raunin er sú að af um þrjátíu nefndarfundum hafa þau aðeins séð sér fært að hafa tvo fundi opna.“
Lenya Rún Taha Karim, frambjóðandi Pírata sem einnig féll út við endurtalninguna, segir það vissulega vera vonbrigði að endurkosning á landsvísu sé útilokuð.
Lenya Rún Taha Karim, frambjóðandi Pírata sem einnig féll út við endurtalninguna, segir það vissulega vera vonbrigði að endurkosning á landsvísu sé útilokuð.
„Uppkosning er vissulega skömminni skárra heldur en seinni tölurnar sem eiga að gilda. En kosningakerfið á Íslandi var þannig hannað að allir ganga inn í kjörklefann á sama tíma með sömu upplýsingar, á meðan að kjósendur Norðvesturkjördæmis, ef það yrði farið fram á uppkosningar, þá vita kjósendur Norðvesturkjördæmis úrslitin á landinu. Ég held í alvöru talað að eina góða lausnin hefði verið endurkosning á landsvísu,“ segir Lenya sem játar að staðan sé mikil vonbrigði.
„Já algjörlega. Maður treystir lýðræðinu, svo gerist eitthvað svona og maður treystir nefndinni til þess að komast að góðri niðurstöðu. Svo fara þau örugglega fram á seinni talningu eða uppkosningu,“ segir Lenya.
Hólmfríður Árnadóttir, frambjóðandi VG sem féll út við endurtalninguna, kveðst ekki vilja tjá sig.