Undir­búnings­nefnd kjör­bréfa­nefndar hyggst skila tveimur til­lögum að við­brögðum Al­þingis vegna stöðunnar í Norð­vestur­kjör­dæmi eftir Al­þingis­kosningarnar í lok septem­ber. Þetta kemur fram á Vísi.

Hvorug leiðanna sem undir­búnings­nefndin leggur til felur í sér að fyrri talningin í Norð­vestur­kjör­dæmi verði látin gilda. Annars vegar geti Al­þingi sam­þykkt upp­kosningu í kjör­dæminu eða að seinni talningin verði látin gilda.

Rósa Björk Brynjólfs­dóttir, fyrr­verandi þing­maður Sam­fylkingar og ein þeirra sem datt út af þingi við endur­talninguna, segir það graf­alvar­legt mál ef Al­þingi leggur blessun sína yfir niður­stöður endur­talningarinnar í Norð­vestur­kjör­dæmi.

„Það er alveg eðli­legt að það sé verið að kjósa um upp­kosningu og til­lögu nefndarinnar um það vegna þess er náttúr­lega skýrt sam­kvæmt tveimur greinum í kosninga­lögum að það eru hin laga­legu og réttu við­brögð - að fara í upp­kosningu í við­komandi kjör­dæmi ef vafi leikur á um talningu at­kvæða, eins og raunin er,“ segir Rósa Björk.

Að sögn Rósu Bjarkar snýst kæra hennar ein­mitt um að upp­kosning sé rétta leiðin í stöðunni.

„Nefndin hefði getað komist að þeirri niðurt­söðu að láta fyrstu tölur gilda. Í raun og veru þá eru minni vafat­riði við fyrstu tölur heldur en að láta ó­lög­lega endur­talningu gilda vegna þess að við það að sam­þykkja endur­talninguna þá er Al­þingi um leið að leggja blessun sína yfir brot á kosninga­lögum - eins og sektar­gerð lög­reglu­stjórans á Vestur­landi, með að­stoð ríkis­sak­sóknara sýnir; að þarna hafi verið um lög­brot að ræða þar sem kjör­stjórna­með­limir þurfi að greiða sektar­gerðir vegna lög­brotanna eða sitja í fangelsi,“ segir þing­maðurinn fyrr­verandi.

„Og það er náttúr­lega graf­alvar­legt mál ef lög­gjafar­aðilinn, Al­þingi sjálft ætlar sér að legga blessun sína yfir ó­lög­mæta endur­talningu,“ bætir Rósa Björk við.

„Þessi töf sem hefur verið við­höfð í nefndinni verður ó­sjálf­rátt til þess að upp­kosning verður erfiðari í hugum þing­manna og sérsstak­lega ríkis­stjórnarinnar,“ segir Karl Gauti Hjalta­son, fyrr­verandi þing­maður Mið­flokksins, sem var inni á þingi miðað við fyrri talninguna en féll út við þá síðari.

„Þessar sjö eða átta vikur gætu reynst dýr­keyptar,“ heldur Karl Gauti á­fram. Hann gagn­rýnir undir­búnings­nefndina fyrir sýndar­mennsku með full­yrðingum um gagn­sæi. „Raunin er sú að af um þrjá­tíu nefndar­fundum hafa þau að­eins séð sér fært að hafa tvo fundi opna.“

Lenya Rún Taha Ka­rim, fram­bjóðandi Pírata sem einnig féll út við endur­talninguna, segir það vissu­lega vera von­brigði að endur­kosning á lands­vísu sé úti­lokuð.

Lenya Rún Taha Ka­rim, fram­bjóðandi Pírata sem einnig féll út við endur­talninguna, segir það vissu­lega vera von­brigði að endur­kosning á lands­vísu sé úti­lokuð.

„Upp­kosning er vissu­lega skömminni skárra heldur en seinni tölurnar sem eiga að gilda. En kosninga­kerfið á Ís­landi var þannig hannað að allir ganga inn í kjör­klefann á sama tíma með sömu upp­lýsingar, á meðan að kjós­endur Norð­vestur­kjör­dæmis, ef það yrði farið fram á upp­kosningar, þá vita kjós­endur Norð­vestur­kjör­dæmis úr­slitin á landinu. Ég held í al­vöru talað að eina góða lausnin hefði verið endur­kosning á lands­vísu,“ segir Lenya sem játar að staðan sé mikil von­brigði.

„Já al­gjör­lega. Maður treystir lýð­ræðinu, svo gerist eitt­hvað svona og maður treystir nefndinni til þess að komast að góðri niður­stöðu. Svo fara þau örugg­lega fram á seinni talningu eða upp­kosningu,“ segir Lenya.

Hólm­fríður Árna­dóttir, fram­bjóðandi VG sem féll út við endur­talninguna, kveðst ekki vilja tjá sig.