Menntaráð Kópavogsbæjar samþykkti á fundi í vikunni að bjóða upp á grænkeramat, eða vegan mat, í öllum grunnskólum bæjarins. Leikskólanefnd bæjarins fundaði um málið í gær eftir tilmæli frá menntaráði og samþykktu einnig að koma til móts við óskir leikskólabarna og foreldra þeirra sem vilja grænkeramat. 

„Þetta er mannréttindamál að lífsskoðunum allra sé mætt og það er þegar tekið tillit til þess ef fólk borðar ekki einhverjar fæðutegundir af trúarástæðum en það hefur ekki það sama gilt um veganisma,“ segir Sigurbjörg Erla. Hún bendir á í Bretlandi hafi nýverið fallið dómur þar sem niðurstaðan kvað á um að veganismi væri jafngildur öðrum lífsskoðunum eins og trúarbrögðum.

Sigurbjörg segir að hún hafi gengið í málið eftir að sveitarfélagið fékk áskorun frá Samtökum grænkera á Íslandi um að auka úrval veganfæðis í skólum.

„Ég tók þetta að mér og var eini bæjarfulltrúinn í Kópavogi sem gerði það. Ég fundaði með samtökunum,“ segir Sigurbjörg og að í kjölfarið hafi hún sent inn tillöguna sem loks var svo samþykkt á fundi menntaráðs í gær.

Hún segir að þetta sé í takt við ákall bæði barna og foreldra um að auka úrvalið og að það sé mikið fagnaðarefni að þetta hafi verið samþykkt.

Að sögn Sigurbjargar eru flestir skólarnir með sitt eigið eldhús og í þremur af átta hafi verið í boði að fá veganmat en að stefnan sé að allir átti bjóði upp á það.

Spurð hvort að skólarnir í Kópavogsbæ hafi tekið vel í þessa breytingu segir hún viðbrögðin hafa verið misjöfn en að „nú verði línan lögð“ og að það verði skylda að breyta matseðlinum.

„Það þarf auðvitað leiðbeiningar til matráða því þau sem hafa aldrei eldað annað en dýraafurðir eru oft feimin við það,“ segir Sigurbjörg Erla og segir að Samtök grænkera hafi boðið fram aðstoð við að búa til uppskriftarbók fyrir mötuneyti.

Þá eru einnig til nýlegar leiðbeiningar frá embætti landlæknis um grænkerafæði.