Í byrjun vikunnar, á upplestri Sjón úr nýjustu bók sinni, Korngult hár, grá augu, stóð upp sagnfræðingur og kvaddi sér hljóðs. Hann vildi vita hvort skáldið hefði orðið vart við það að upplýsingar um nýnasista væru að hverfa af netinu.

Aðalpersónan í skáldsögu Sjón er nýnasistinn Gunnar Kampe, sem minnir marga lesendur á Bernhard heitinn Haarde, fyrrverandi forystumann nýnasistahreyfingarinnar á Íslandi allt til ársins 1962.

Sagnfræðingurinn, sem kýs að koma ekki fram undir nafni, sagði í samtali við Fréttablaðið að hann hefði lengi rannsakað íslenska nýnasista og farið í mikla gagnasöfnun fyrir 18 árum. Á þeim tíma var verið að þróa vefsíður á borð við timarit.is og Íslendingabók á íslenskum lénum.

Eftir að umræddur sagnfræðingur áttaði sig á fyrirmyndinni í bók Sjóns, ákvað hann að glugga aftur í gömlu gögnin. Á leitarvefnum vantaði hins vegar talsvert mikið af afmörkuðum upplýsingum.

„Ég mundi eftir öllu efninu sem ég fann í þá tíð. Ég var að lesa um þær einkunnir sem Bernhard fékk í skóla, þetta var nánast of mikið af upplýsingum sem ég fann. Ég prófaði að fara á svipaðar síður en þá var ekkert það sama. Það var búið að loka aðgangi og fjarlægja upplýsingar.“

Netið gleymir víst

Hvað hefur orðið um þessar upplýsingar sem var að finna á internetinu fyrir 18 árum? Er verið að takmarka aðgengi að upplýsingum um íslenska nýnasista eða tengist málið svokölluðu hlekkjaroti eða jafnvel nýjum persónuverndarlögum?

„Internetið er eins og bíll, þú skilur hann eftir úti í rigningu í þrjú ár og hann ryðgar.“

Páll Hilmarsson, sérfræðingur sem vinnur hjá gagnaþjónustu Reykjavíkurborgar, segir líklega skýringu þá að heimasíður séu að hverfa.

„Internetið er eins og bíll, þú skilur hann eftir úti í rigningu í þrjú ár og hann ryðgar. Svo dettur spegillinn af og rúðuþurrkurnar með. Heimasíður týnast. Þetta hefur verið kallað hlekkjarot (e. Link rot). Hlutir rotna og þetta er vandamál, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á að varðveita söguna,“ segir Páll í samtali við Fréttablaðið.

Er það þá mýta að allt sem fari á netið endist að eilífu?

„Það er mjög svo rangt. Þetta endist þúsund sinnum betur á pappír. Aðgengið á netinu er meira í skamma stund og svo deyr það.“

En ef við getum ekki treyst á að gögnin okkar geymist á netinu, verða þá skjalasöfn gullhvelfingar framtíðarinnar? Getum við einungis treyst upprunalegum gögnum fyrir tíma tölvunnar og prentuðum eintökum af efni af netinu? Þar liggur efinn.

En sagnfræðingurinn segist einmitt eiga afrit. Hann prentaði gögn af íslenskum vefsíðum fyrir 18 árum og safnaði alls kyns upplýsingum um nýnasista. Vandamálið er að þetta eru mörg þúsund blaðsíður sem leynast nú víða um í pappakössum í rykugu skjalasafni á heimili hans. Hann hefur einfaldlega ekki tíma til að fletta í gegnum allt skjalasafnið.

Getum við einungis treyst upprunalegum gögnum fyrir tíma tölvunnar og prentuðum eintökum af efni af netinu?

Upplýsingastýring undir yfirborðinu

Sagnfræðingurinn segist finna fyrir því í störfum sínum að ákveðin upplýsingastýring eigi sér stað undir yfirborðinu.

„Ég er búinn að vera í þessum bransa svo lengi. Ég finn að það er verið að skerma fyrir ákveðnum leitarorðum. Upplýsingarnar virðast vera til staðar en leitarorðin gefa þær ekki upp. Þetta minnir mig á þá tíð þegar ég reyndi að fletta upp upplýsingum um Falun Gong mótmælin, þá komu bara upp upplýsingar um Davíð Oddsson,“ segir sagnfræðingurinn og hlær.

Hvað með íslenskar vefsíður sem sagnfræðingar reiða sig oftast á, eins og timarit.is?

„Ef þú veist nákvæmlega hvaða dagblað eða tímarit, hvaða dagsetningu og blaðsíðu er um að ræða, þá getur þú fundið upplýsingarnar. Ég treysti frekar timarit.is. Á stóru leitarvélunum eins og Google er komin stýring og þá er byrjað að hylja eða hylma yfir eitthvað. Maður finnur einfaldlega fyrir því þegar maður vinnur við að safna gögnum.“

„Auðmenn þurfa bara að renna í gegnum símaskrárnar sínar til að halda ákveðnum upplýsingum frá almenningi.“

Er þá einhvers konar upplýsingastýring sem á sér stað til að takmarka aðgang að sagnfræðilegum upplýsingum?

„Ég efa það ekki. Maður sér það þegar maður fer að skoða George Rockwell. Þegar Guðmundur Magnússon átti að skrifa hefðbundna íslenska bók um Thor Jensen og Thorsaraættina, þá var upplaginu mokað á haugana og höfundur varð að breyta kaflanum til þess að bókin kæmi út.“

Þar vitnar sagnfræðingurinn í atvik frá árinu 2005 þegar heilu upplagi af nýrri bók var fargað og annað handrit prentað í staðinn. Fjallað var um málið á NFS, fyrrum fréttastöð ljósvakamiðla 365, á sínum tímum en samkvæmt heimildum hennar var ástæða förgunarinnar umfjöllun um nasistaleiðtogann George Rockwell og hjónaband hans og Þóru Hallgrímsson. Eigandi útgáfunnar sem gaf út bókina var Björgólfur Guðmundsson, eiginmaður Þóru.

„Þetta er dæmi um mjög skýra ritskoðun en öll önnur ritskoðun á sér stað undir yfirborðinu og hún á sér stað. Peningar hjálpa þér að stýra upplýsingunum. Auðmenn þurfa bara að renna í gegnum símaskrárnar sínar til að halda ákveðnum upplýsingum frá almenningi,“ segir sagnfræðingurinn.

Ástæða förgunarinnar var umfjöllun um nasistaleiðtogann George Rockwell og hjónaband hans og Þóru Hallgrímsson.
Fréttablaðið/Getty images

Rétturinn til að gleymast

Hægt er að brenna bækur en er hægt að afmá söguna á netinu?

„Það er auðvitað þessi réttur til að gleymast. Menn geta sótt um að láta gleyma sér,“ segir Eggert Thorlacius tölvunarfræðingur í samtali við Fréttablaðið.

Rekja má málið til dóms frá árinu 2015 þegar Evrópudómstóll dæmdi í máli varðandi Google á Spáni. Leitarvélum var skylt að fjarlægja tengla sem birtust um ákveðinn einstakling þegar flett var upp nafni hans. Þessi dómur breytti öllu.

Eggert skrifaði svar á Vísindavefnum við spurningu um það hvernig leitarvélar verka. Textinn birtist árið 2002, tveimur árum áður en timarit.is var sett á laggirnar.

Eggert telur að nýnasistasamtök geti ekki sótt um að láta fjarlægja allt efni um sig við uppflettingar.

Páll hjá gagnaþjónustunni tekur undir þetta og telur íslenska nýnasista almennt vera frekar tæknilega hefta og segir þá ekki hugsa svo strategískt.

Eggert bendir á að fyrirtæki sem halda úti leitarvélum vilji auðvitað koma mikilvægustu upplýsingum efst og sjái sér engan hag í því að fela upplýsingar um nýnasista, hvað þá íslenskt efni um nýnasista.

„Íslendingar hafa beðið um að fá að gleymast.“

„Auglýsingafyrirtæki berjast einnig við að koma sínum auglýsingum að efst í leitarniðurstöðunum. Það er ákveðinn galdur bak við það sem ég held að menn séu ekki að nota til að láta upplýsingar hverfa,“ segir Eggert.

„Ef einstaklingar vilja láta ákveðnar upplýsingar um sig hverfa þá held ég að þeir þurfi að sýna fram á að þeir séu viðkomandi einstaklingur. Þeir geta ekki beðið um að láta ákveðna síðu detta út.“

Google lætur vita ef leitarniðurstöður hefðu innihaldið upplýsingar um einhvern sem hefur farið í gegnum GDPR-ferlið. Glöggir lesendur kannast eflaust við þennan fyrirvara sem segir til um að hér hafi hugsanlega verið upplýsingar sem Google hefur fjarlægt samkvæmt evrópskum reglugerðum.

Við geymum allt og fjarlægjum ekkert

Þessi réttur til að gleymast á einungis við um stórar leitarvélar eins og Google. Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri varðveislusviðs Landsbókasafns, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið. Hann segir marga Íslendinga hafa beðið um að fá að gleymast á síðustu árum.

„Við höfum fengið fyrirspurnir í þó nokkur ár. Íslendingar hafa beðið um að fá að gleymast,“ segir Örn í samtali við Fréttablaðið. Landsbókasafnið fær fyrirspurnir og þá beinir það einstaklingum að umsóknarferlinu hjá leitarvélum. En Landsbókasafnið ritskoðar ekkert. Þjóðskjalasafnið er með samning við útgefendur blaðanna um að varðveita öll gögn.

„Við geymum allt og fjarlægjum ekkert. Við höfum ekki heimild til að ritskoða efni. Ekkert fer út og við felum ekkert, annars værum við að ritskoða,“ segir Örn. Rétturinn til að gleymast nær því ekki til stærsta gagnasafns þjóðarinnar.

En það einfaldar þó ekki leitina. Stefán Pálsson sagnfræðingur bendir á að textaleitin á timarit.is sé langt frá því að vera fullkomin.

„Stafræna innfærslan er unnin af tölvum og alls ekki eins mikill tími er látinn fara í yfirlestur manna og æskilegt væri.“

Páll hjá gagnaveitunni tekur undir þetta.

„Það fer enginn tími í yfirlestur. Þetta er ljóslesið, svo er algóritmi sem reynir að átta sig á því hvort þarna standi blað, eða það, eða svað, og það gengur misvel. Leitarvélin segir þér svo sem ekkert. Efnið gæti verið þarna þótt þú finnir það ekki í leitarvélinni.“

Fréttablaðið/ Daníel Rúnarsson