Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, segir að þrátt fyrir að vera ýmsu vanur sem stjórnmálamaður hafi það verið öðruvísi og verra þegar hann frétti af því að mynd af honum væri á glæru í kennsluefni Verslunarskóla Íslands, ásamt myndum af Adolf Hilter og Benító Mússólíni, undir yfirskriftinni „Nokkrir merkir þjóðernissinnar“.
Sigmundur Davíð vakti athygli á glærunni í færslu á Facebook í gær, þar sem hann gagnrýnir ákvörðun kennarans.
„Þarna er verið að búa til mjög ógeðfellt samhengi og það er ekki hægt að kalla þetta annað en pólitíska innrætingu þegar mynd af starfandi stjórnmálamanni er sett við hliðina á myndum af tveimur helstu illmennum mannkynssögunnar,“ segir Sigmundur Davíð.
„Auðvitað hefur það oft verið sagt að þegar menn verða rökþrota í pólitísku rifrildi er gripið til þess stundum að líkja mönnum við einhverja slíka. En þarna er farið óvarlega með stór orð, og það sem gerir það verra er þegar það er undirbúið og skipulega og sem hluti af menntum barna og ungmenna,“ bætir hann við.
Þó segist Sigmundur Davíð telja að langflestir kennarar gegni starfi sínu af samviskusemi og fórnfýsi, en það sé vissulega ábyrgðarstaða að vera kennari.
„Og þegar kennari notar stöðu sína í því sem var augljóslega pólitískur tilgangur, þá er þetta einhvern veginn verra en óhróður á netinu eða samskiptamiðlum,“ segir hann.
Að sögn Sigmundar Davíðs hefur skólastjóri Verzlunarskólans, Guðrún Inga Sívertsen, haft samband vegna málsins og beðist afsökunar, að minnsta kosti að hluta til.
„Það er kannski ekki við öðru að búast en að menn fari í smá vörn þegar svona kemur upp. En ég átti ágætis samtal við skólameistarann og við ræddum þessi mál almennt og mér skilst að þessi tiltekna glæra verði ekki notuð áfram,“ segir Sigmundur Davíð.
Þá vilji hann hvetja hana, og alla skólastjórnendur, til að fylgjast með því sem verið sé að kenna, bæði í framhaldsskólum sem og háskólum. Pólitískur áróður sé aldrei af hinu góða innan skólakerfisins.
„Ég nefndi við hana að í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur verið töluverð umræða meðal foreldra og foreldrafélaga um hvað er verið að kenna börnunum þeirra. Gagnrýni á að pólitískur áróður detti inn í kennslu og það væri ekki gott ef slík þróun ætti sér stað á Íslandi. Hún var alveg sammála mér um það,“ segir Sigmundur Davíð.