Lögmenn tveggja fyrrverandi bankastjóra gamla Landsbankans, LBI ehf., og erlendra tryggingafélaga kröfðust þess í gær að þeim yrðu dæmdar allt að tíu milljónir króna samtals vegna máls sem bankinn höfðaði gegn þeim en óskaði síðan eftir að yrði fellt niður.

Upphaflega stefndi slitastjórn Landsbankans bankastjórunum fyrrverandi og fjölmörgum tryggingafélögum, þar á meðal QBE Int Insurance Ltd. og QBE Corporate Limited, vegna starfsábyrgðartryggingar stjórnendanna og krafðist þess að greiddir yrði 40 milljarðar króna vegna skaða sem bankastjórarnir hefðu valdið bankanum í aðdraganda hrunsins 2008. Hluta málsins lauk með dómi Landsréttar er tryggingafélögin og Halldór J. Kristjánsson voru sýknuð af kröfu LBI ehf. Í ljósi þessa dóms óskaði LBI ehf. eftir því að þetta mál yrði fellt niður.

Sigurður H. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns Þ. Árnasonar, sagði Sigurjón eina bankamanninn á Íslandi sem dæmdur hefði verið til að greiða fyrrverandi vinnuveitanda sínum 200 milljónir króna.

„Við honum blasir lítið annað en gjaldþrot,“ lýsti lögmaðurinn stöðu bankastjórans fyrrverandi.

Sagði Sigurður að miðað við þá vinnu sem leggja hefði þurft í vegna þessa anga málsins væri eðilegt að Sigurjóni yrðu úrskurðaðar tvær til þrjár milljónir í kostnað sem slita­stjórnin ætti að greiða. Hilmar Magnússon, lögmaður Halldórs, hafði uppi sams konar kröfu.

Kristinn Bjarnason, lögmaður Landsbankans, sagði þau skjöl sem tilheyrðu þessum hluta málsins að stærstum hluta hafa komið fram áður og dró í efa að lögmennirnir hefðu þurft að leggja í þá vinnu sem fjárkröfur þeirra endurspegluðu.

„Þeir mættu taka út eitt núll,“ sagði hann um kröfur lögmannanna.

Hildur Ýr Viðarsdóttir, lögmaður erlendu tryggingafélaganna, sagði 106 vinnustundir hafa farið í málið hjá þeim.

Meðal annars sagði Hildur Ýr að þurft hefði að skrifa greinargerð vegna kröfu sem þau settu fram um að málinu yrði vísað frá og að aukin vinna fælist í því að þurfa að þýða samskiptin fyrir hina erlendu aðila.

Sagði lögmaður LBI ehf. kröfu erlendu tryggingafélaganna vera yfir fjórar milljónir króna sem væri „ansi vel í lagt“, eins og hann orðaði það.

Dómari mun úrskurða um málskostnaðinn innan tíðar.

landsbankinn5385.jpg

Kristinn Bjarnason, lögmaðir LBI ehf.