Sigurgeir Bárðarson, lögfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, segir ógerning að bregðast við gagnrýni bandaríska milljarðamæringsins Yvon Chou­inard á fiskeldi á Íslandi. Til þess hafi gagnrýni Chouinard verið of almenn og ekki miðuð við framkvæmd fiskeldis hér á landi.

Chouinard bar fiskeldi þungum sökum í viðtali við Fréttablaðið í gær og sagði Íslendinga ekki vera að gera það rétta í fiskeldismálum.

„Við getum mjög lítið tjáð okkur um hvað er í gangi í Kanada og öðrum löndum,“ segir Sigurgeir. „Það eru ekki sömu reglurnar, aðstæðurnar eða umhverfið og við erum ekki að fara að taka upp hanskann fyrir fiskeldi annars staðar.

Ég veit ekki til þess að þessi maður hafi neina sérþekkingu um það hvernig fiskeldi er framkvæmt á Íslandi. Þetta eru eiginlega skot út í bláinn sem okkur finnast ekki svaraverð á þessu stigi.“

Sigurgeir segir tilteknar staðhæfingar Chouinards beinlínis rangar. „Það kom til dæmis fram að það væri meira magn af ómega-6 fitusýrum í eldislaxi. Matís hefur gert rannsóknir á þessu hér á landi sem benda á hið þveröfuga, að það sé mjög gott magn af ómega-3 fitusýrum. Svo er nýleg rannsókn frá Harvard sem sýnir að ómega-6 fitusýrur eru mjög heilsusamlegar, öfugt við það sem áður var talið.

Það úir og grúir af fullyrðingum sem við teljum ekki eiga við í fiskeldi hérna og mér finnst ekki skýrt hvort hann var yfirhöfuð að beina þessu að íslensku fiskeldi.“