Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir fyrrverandi utanríkisráðherra sinn, Rex Tillerson, vera „grjótheimskan“ í færslu sem hann birti á Twitter í dag. Hann segir Mike Pompeo, sem nú gegnir embættinu, hafa staðið sig töluvert betur.

„Forveri hans [Pompeo], Rex Tillerson, hafði ekki það sem þarf andlega. Hann var heimskari en grjót og ég gat ekki losað mig við hann nógu hratt. Hann var latari en andskotinn,“ skrifaði forsetinn.

Tillerson rauf í gær margra mánaða þögn og virðist það hafa farið fyrir brjóstið á Trump. Meðal þess sem hann lýsti í gær voru samskipti hans og forsetans. Þannig hafi Trump sagst vilja gera hitt og þetta en Tillerson sagt honum að það væri ekki hægt. 

Sumt sem hann hefði stungið upp á væri einfaldlega ekki lögum samkvæmt. Þá sagði hann forsetann vera óagaðan og óábyrgan í starfi sínu.