„Ég hef bara aldrei hugsað út í þetta fyrr en núna, eftir að þessi gögn birtast, hvað þetta fyrir­komu­lag er klikkað og hvað vantaði margt uppá,“ segir Ás­dís Birna Bjarka­dóttir, sál­fræði­nemi og upp­komið barn fyrr­verandi fanga, um réttindi og stöðu barna sem eiga for­eldra í fangelsum.

Í vikunni birti Um­boðs­maður barna niður­stöður tveggja rann­sóknar­verk­efna sem taka á réttindum barna sem eiga for­eldra í fangelsum. Þar kemur fram að Ís­land er til­tölu­lega aftar­lega á merinni miðað við ná­granna­lönd þegar kemur að réttindum barna fanga. Lítil sem engin um­fjöllun hefur verið um börn fanga og hags­munum þeirra og réttindum lítill gaumur gefinn.

Þá er ekki vitað hversu mörg þau eru í heildina þar sem upp­lýsingum um þau er ekki safnað. Engir barna­full­trúar eru í fangelsunum og heim­sóknar­að­staða fyrir börn er víða nötur­leg.

Frétti af dómnum í há­degis­fréttunum

Spurð segist Ás­dís fagna því að mál­efni barna fanga séu í skoðun, en hún var þrettán ára þegar faðir hennar fór inn á Litla-Hraun.

„Maður var alltaf eitt stórt spurningar­merki því það var aldrei neitt út­skýrt fyrir mér. Ég er náttúru­lega bara barn á þessum tíma og það var verið að reyna að skýla mér, en ég frétti af dómnum hans pabba í há­degis­fréttum í út­varpinu,“ segir Ás­dís.

Þá hafi upp­lýsinga­flæðið verið í lág­marki og enginn stuðnings­hópur í boði fyrir börn í hennar stöðu.

„Ég tengdi ekki við neinn þar sem það var enginn í kringum mig sem vissi hvað ég var að ganga í gegnum. Maður var bara svo­lítið „on your own“ og ég fann að allir voru að pískra um þetta í kringum mig. Og ef ég nefndi þetta við nánustu vin­konur - þetta var svo ó­trú­lega mikið úr myndinni fyrir þeim. Hvernig áttu þær að geta skilið hvað ég var að tala um eða ganga í gegnum?“, spyr Ás­dís.

Hitti föður sinn ekki í fimm ár

Faðir Ás­dísar sat í fangelsi frá 2010 til 2015, en á meðan á fangelsis­vist hans stóð hittust þau ekkert.

„Ég fór aldrei og heim­sótti hann af því honum fannst heim­sóknar­rýmið ekki nægi­lega gott. Hann vildi ekki að ég kæmi inn í þessar að­stæður,“ segir Ás­dís. Við­skilnaðurinn hafi haft djúp­stæð á­hrif á hana.

„Mér fannst þetta svo­lítil höfnun þar sem við vorum alveg í miklu sam­skiptum áður en hann fer inn. Við höfum samt sam­band í gegnum tölvu og ég fékk að sjá myndir af honum. En sam­bandið dofnaði alveg þessi ár sem hann sat inni,“ segir Ás­dís.

Tók tíma að byggja upp sam­bandið aftur

„Í dag byggjum við okkar sam­band á námi og öðru, en það þurfti alveg svo­lítinn tíma að ná okkur aftur á strik. Og ég veit ekki, kannski hefði það ekki verið svo­leiðis ef heim­sóknar­rýmið hefði verið á­sættan­legra og hann hefði viljað að ég kæmi í heim­sókn,“ segir Ás­dís, sem kveðst þó telja þessa lífsreynslu mjög dýrmæta að vissu leyti.

„Þetta gerir mig ríkari fyrir vikið, en þetta hafði svaka­lega skemmandi á­hrif á mína æsku. Þetta hafði mikil á­hrif á mína skóla­göngu og fé­lags­leg tengsl og bara allt. Þetta er mjög við­kvæmur aldur. Ég get tengt mína neyslu að stórum hluta við þetta á­fall og þessa van­líðan sem var innra með manni,“ segir Ás­dís, og bætir við:

„Maður þurfti að full­orðnast alveg svaka­lega á þessum tíma og fékk í raun ekkert að vera barn. Á þeim tíma hélt ég að þetta væri bara eðli­legt, að hafa svona margar spurningar og líða gagn­vart þessu eins og mér leið.“

„Ég get tengt mína neyslu að stórum hluta við þetta á­fall og þessa van­líðan sem var innra með manni“

Leiddist út í heim fíkni­efna

Ásdís segist hafa leiðst út í heim fíkniefna skömmu eftir að faðir hennar fór í fangelsi. Neyslan hafi harðnað með tímanum.

„Ég byrjaði fljót­lega eftir að hann fer inn að fikta við að reykja gras. Svo drakk ég illa sem krakki og svo var það í byrjun 2015 sem ég fer út í harðari neyslu,“ segir Ás­dís, og bætir við að hún sé þó á mun betri stað í dag.

„Eftir nokkrar með­ferðir næ ég mér aftur á strik, sem er alls ekki sjálf­sagt. Ég er á góðum stað í dag og er að læra sál­fræði, en ég hef mikinn á­huga á þessum málum og mig langar mjög mikið að fara í af­brota­fræði,“ segir Ás­dís.

Þörf á stuðnings­hóp og betra upp­lýsinga­flæði

Spurð um hvaða úr­ræði hún hefði viljað sjá á sínum tíma segir Ás­dís að ef stuðnings­hópur hefði verið í boði hefði það hjálpað henni mikið.

„Það hefði verið frá­bært að hafa stuðnings­hóp þar sem maður getur hitt krakka sem tengja við mann. Ekkert endi­lega til að ræða til­finningar, heldur að þetta sé bara hittingur þar sem þú getur talað um það sem tengir ykkur. Að vita að þú ert ekki einn,“ segir Ás­dís.

Þá sé þörf á betra upp­lýsinga­flæði til barna fanga.

„Það er alveg hægt að orða hlutina þannig að börn skilji og viti hvað er að gerast. Það setur svo mikinn kvíða og ó­vissu inn hjá þeim að fá ekki að vita neitt,“ segir Ás­dís, og spyr af hverju mál­efni barna fanga hafi ekki löngu verið sett í for­gang hér á landi.

„Við erum að tala um börn sem koma sem skaddaðir ein­staklingar út í sam­fé­lagið af því það er ekki verið að halda nægi­lega vel utan um þau. Þetta er eitt­hvað sem þau ráða ekki við. Þau eru bara sett inn í þessar að­stæður að eiga þetta for­eldri með til­heyrandi á­byrgð. Hvað átt þú sem barn að geta gert í þessu?“ spyr Ás­dís.