Framkvæmdir við Vatnsstíg í miðbæ Reykjavíkur hafa nú staðið yfir í tæpt ár en þær hafa haldið íbúum og verslunareigendum í götunni í gíslingu.

Anna Þóra Björnsdóttir sem rekur gleraugnaverslunina Sjáðu á horni Hverfisgötu og Vatnsstígs segir framkvæmdirnar farnar gjörsamlega úr böndunum og að gærdagurinn hafi verið hræðilegur.

„Það hristist allt svo rosalega og við vorum öll öskrandi og æpandi inni í búð. Ég hringdi í verktakann og bað hann um að koma en hann neitar að koma því hann er í sumarbústað í fríi,“ segir Anna Þóra í samtali við Fréttablaðið en hún komst sjálf ekki í vinnuna í morgun vegna veikinda eftir hávaðann í gær.

Ekki benda á mig

Anna Þóra hefur ítrekað óskað eftir því að fá að sjá leyfisskjöl og aðra pappíra vegna framkvæmdanna en að það hafi ekki borið árangur.

„Ég vil að framkvæmdirnar séu stöðvaðar, þetta er svo langt frá því að vera í einhverju samræmi við það sem getur gerst,“ segir Anna Þóra og bætir við að ekki náist í neinn hjá Reykjavíkurborg vegna málsins og að allir benda hver á annan.

Í gær var mikill hávaði vegna framkvæmdanna.
Fréttablaðið/Aðsend mynd

Slæmt ástand

Fréttablaðið hefur áður fjallað um framkvæmdirnar við Vatnsstíg en í febrúar sagði íbúi að framkvæmdirnar hafi staðið mun lengur en upphaflega hafi staðið til.

Fólk hafi sýnt framkvæmdunum skilning í upphafi en að ástandið væri orðið slæmt.

Anna Þóra segir verktakann hafa lofað að láta vita áður en farið yrði í háværar framkvæmdir með 24 klukkustunda fyrirvara en að ekkert hafi heyrst frá honum vegna framkvæmdanna í gær.

Lögreglan kom tvisvar

Að sögn Önnu Þóru sá hún sig tilneydda í gær til að kalla út lögreglu, tvisvar, vegna framkvæmdanna. „Húsið gjörsamlega nötraði. Það var verið að brjóta grunninn undir húsinu mínu,“ segir Anna Þóra og bætir við að hún vilji að framkvæmdir verði stöðvaðar þar til einhver geti sýnt fram á að þær séu leyfilegar.

Vandamálið sé helst það að ekki náist í starfsmenn borgarinnar og allir benda hver á annan segir Anna Þóra og bætir við að fólki og verslunareigendum sé haldið í gíslingu vegna framkvæmdanna.

„Ég treysti mér ekki í vinnuna í morgun, ég er bara búin að gráta síðan ég kom heim í gær.“

Tjón vegna framkvæmda

Þegar Fréttablaðið leitaði svara hjá borginni vegna framkvæmdanna í febrúar fengust þær upplýsingar að útgefið afnotaleyfi væri til staðar fyrir framkvæmdinni við Vatnsstíg og að það rynni út 19. ágúst næstkomandi.

Anna Þóra hefur ekki eingöngu misst starfsfólk og viðskipti vegna framkvæmdanna heldur hafa einnig orðið miklar skemmdir í verslun hennar. Skemmdir hafa orðið á innbúi verslunarinnar og viðkvæmum tækjum.

Að sögn Önnu Þóru hefur verktakinn enn sem komið er ekki bætt neitt tjón og að hann hafi oft gefið út að framkvæmdirnar séu að klárast en að það standist aldrei.

Hér má sjá teikningar af Vatnsstíg frá Laugavegi.
Ljósmynd/Vefur Reykjavíkurborgar