Sig­rún Tryggva­dóttir, for­maður Í­búa­sam­taka Mið­borgar, segir nauð­syn­legt að taka rútu­um­ferð út úr Njarðar­götu og Baróns­stíg. Strætó keyri allt of hratt niður þessar götur, sem séu allt of litlar.

„Við ræddum um að taka rútu­um­ferðina út á stofn­brautir, en við höfum rætt það mikið áður en það hefur því miður ekki verið lendingin. Við viljum að slík um­ferð verði ekki leyfð út úr Njarðar­götunni og Baróns­stíg. Þetta eru allt of litlar götur,“ segir Sig­rún, en fyrr í kvöld héldu Íbúasamtök Miðborgarinnar fund þar sem þessi mál meðal annars voru rædd.

Sig­rún segir að það sem í­búa­sam­tökin hafi til hlið­sjónar í þessu máli sé að bæði for­eldrar barna í hverfinu, sem og í­búar al­mennt, séu og hafi verið ó­örugg í um­ferðinni.

„Í fyrsta lagi er illa lýst. Lýsingin er alveg hræði­leg. Það er allt of dimmt og um­ferðin hefur aukist. Við ræddum að við verðum að í­treka að það verði tekið á þessu og um­ferðin tekin út á stofn­brautir. Hvernig svo sem það verður gert,“ segir Sig­rún.

Hingað til hafi mikið verið rætt um að færa um­ferðina úr hverfinu, sem Sig­rún segir að hafi ekki hlotið góðar undirtektir. Í ljósi slyssins á Grettisgötu síðustu helgi sé þetta orðið nauð­syn.

„Fólk er að herja á okkur á Face­book og það eru allir að tala um þetta. Við í­búa­sam­tökin förum af stað á næstunni með for­eldrum í Austur­bæja­skóla að aug­lýsa, til að fá for­eldra til að kort­leggja hverfið með til­liti til öryggis. For­eldrar í hverfinu eru mjög á­hyggju­fullir," segir Sigrún.

Að sögn Sig­rúnar verður annar í­búa­fundur um miðjan desember þar sem málið verður tekið á­fram.


„Við vorum með það á stefnu­skránni að kort­leggja hverfið áður en þetta slys kom til, en þetta er orðin dauðans al­vara núna. Við erum að fá til okkar for­eldra barna á Grettis­götunni sem eru uggandi um börn sín. Strætó kemur Egils­götuna og Baróns­stíg að Austur­bæjar­skóla allt of hratt. Þess vegna óskum við eftir því að stóru bílarnir fari út úr hverfinu. Við verðum að gera eitt­hvað áður en það er orðið of seint,“ segir Sig­rún.