„Við getum ekki verið eins og bíla­fram­leiðandinn sem stækkar bara vélina og eykur elds­neytis­notkun til að fá fleiri hest­öfl,“ sagði Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra í ræðu sinni um stefnu­ræðu for­sætis­ráð­herra nú í kvöld. .

„Við þurfum að auka af­köstin á snjallari og út­sjónar­samari hátt, leita nýrra leiða, út­rýma sóun og auka skil­virkni. Þetta er ekki ein­falt verk­efni, og ekki alltaf vin­sælt, en það er nauð­syn­legt ef við ætlum að hafa ráð á því að veita fram­tíðar­kyn­slóðum jafn­góða og betri þjónustu en við gerum í dag,“

Með þessu á ráð­herrann við að mikil­vægt er að fé­lags­leg stuðnings­kerfi, svo sem al­manna­tryggingar­kerfi og heil­brigðis­þjónusta, séu sterk og öflug en að sama skapi sé ekki hægt að stór­auka fram­lögin til þeirra út í hið ó­endan­lega og að það verði mæli­kvarði á gæði þeirra.

Þór­dís Kol­brún fór víða í ræðu sinni og nefndi til að mynd að traust al­mennings á stjórn­málum og þinginu sjálfu væri í molum en réttast væri að al­menningur gæfi stjórn­málunum séns og héldi á­fram að hugsa um stjórn­mál og ræða um stjórnun landsins. Ef lands­menn myndu hætta að hugsa um stjórn­mál og hætta að mæta á kjör­stað yrði það til þess að ó­æski­leg öfl myndu fá meira pláss á hinu pólitíska sviði. Það væri hættu­legt lýð­ræðinu.

Ráð­herann kom einnig inn á á­herslur ríkis­stjórnarinnar í skatta­málum sem munu koma öllum, og þá helst þeim lægst launuðu, vel á næstu árum. „Ein helstu tíðindin í frum­varpinu er að tekju­skattur ein­stak­linga verður lækkaður hraðar en áður stóð til að gera, þannig að lækkunin kemur að fullu fram árið 2021,“ sagði Þór­dís Kol­brún og sagði ríkið ætla að hætta að taka peninga af fólki. „Ráð­stöfunar­tekjur þeirra tekju­lægstu hækka um rúm­lega 120 þúsund krónur á ári. Sam­tals mun ríkis­sjóður skila um tuttugu og einum milljarði á ári til skatt­greið­enda, eða réttara sagt, hætta að taka þessa fjár­hæð af þeim.“