Lista­konan Kitty Von-So­metime segir mikil­vægt að fólk fylgi sótt­varna­reglum svo CO­VID-19 far­aldurinn verði ekki út­breiddari í sam­fé­laginu en hún hefur síðustu daga tekið eftir fjöl­mörgum sem fylgja ekki reglum um fjar­lægðar­mörk og grímu­notkun. „Þetta er mjög ein­falt. Þetta eru tveir metrar og ef þú getur ekki haldið þeim þá notar þú grímu,“ segir Kitty í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún tekur sem dæmi veitinga­stað þar sem engar ráð­stafanir voru gerðar til að fylgja þeim reglum sem til­kynntar voru fyrir helgi. Að sögn Kitty var þess ekki gætt að tveir metrar væru á milli við­skipta­vina auk þess sem þjónarnir, sem þurfa að nota grímur þar sem ekki er hægt að tryggja tvo metra, voru ekki með grímurnar rétt á sér.

„Þjónarnir voru með grímur á sér þannig að þau vissu að þau þyrftu þess en það var ekki verið að nota þær rétt,“ segir Kitty og bætir við að vakt­stjórinn hafi sjálf haft grímuna hangandi á öðru eyranu. Þá hafi starfs­fólkið hallað sér yfir við­skipta­vini meðan þau voru ekki með grímu. „Meira að segja dóttur minni, sem er tíu ára, blöskraði.“

Nauðsynlegt að samfélagið vakni

Kitty hefur þurft að kynna sér reglurnar ítar­lega en hún vinnur nú að kvik­mynd sem þarfnast leyfis frá Land­læknis­em­bættinu svo hægt sé að ganga úr skugga um að fyllsta öryggis sé gætt. Hún segir ljóst að um al­var­legt á­stand sé að ræða en að fólk sé ekki nógu með­vitað um það.

„Ég fór líka í Kringluna í gær og ég mér blöskraði. Það er enginn að taka þessum reglum al­var­lega,“ segir Kitty og bætir við að fólk hafi sér­stak­lega horft á hana því hún var með grímu þrátt fyrir að að­stæður í verslunar­mið­stöðinni voru með því móti að ekki væri hægt að tryggja tvo metra á milli ein­stak­linga.

Hún segir það vera nauð­syn­legt að fólk vakni og geri sér grein fyrir á­standinu þar sem veiran er að öllum líkindum ekki að fara neitt. Þá muni það reynast erfitt að glíma við far­aldurinn og af­leiðingar hans þegar veturinn, og myrkrið sem honum fylgir, kemur. „Þetta verður miklu verra.“

Allir þurfa að taka þátt

„Ég tala reglu­lega við fjöl­skyldu mína í Bret­landi og ég veit hver staðan er þar, þetta er al­gjör­lega hræði­legt og líf fólks hafa verið eyði­lögð,“ segir Kitty. Hún segir íbúa hafa verið heppna með að sam­fé­lagið hafi ekki orðið fyrir frekari á­hrifum en að opnun landa­mæra og vilji stjórn­valda til að koma ferða­mála­iðnaðinum aftur af stað hafi skemmt það.

„Mér finnst bara að við sem búum hér viljum ekki sætta okkur við það að þetta sé mjög al­var­leg staða sem krefst þess að allir taki þátt,“ segir Kitty en hún segir ljóst að far­aldurinn muni fylgja lands­mönnum til lengri tíma. „Ef fólk við­heldur ekki þessum tak­mörkunum þá munum við verða í sömu stöðu og Banda­ríkin og Bret­land eru í.“

Nauðsynlegt að ítreka reglurnar

Að­spurð um hvort að sótt­varna­yfir­völd þurfi að skerpa á þeim reglum sem eru í gildi segir Kitty svo vera en hún telur yfirvöld ekki hafa verið nógu skýr þegar kemur að reglunum. „Þau hafa ekki í­trekað þetta nógu kröftug­lega, tveggja metra reglan er skylda. Það er ekki val­kvætt, þú getur ekki forðast það, þetta er skylda og það er skylda að nota grímu ef þú getur ekki haldið tveggja metra fjar­lægð.“

„Þetta þarf að standa á strætóum, þetta þarf að vera fremst í öllum fjöl­miðlum og það þarf að á­varpa þetta á skýran hátt,“ segir Kitty. Hún skilur vel að fólk vilji halda sem flestum stöðum opnum en staðan sé ein­fald­lega sú að eitt­hvað þurfi að gera.

Hún er þó bjart­sýn um að Ís­land geti tekið á far­aldrinum en til þess þurfi allir að vera sam­taka. „Fólk var mjög dug­legt, okkur tókst að koma þessu frá, áður en við opnuðum landið á ný, en fólk hefur að­eins gleymt sér. Ég held að þar sem við teljum þetta vera „auð­velt“ hérna að þá vísar fólk þessu bara frá og segir þetta reddast.“

„Það er ekkert „þetta reddast“ hérna. Þetta reddast bara ef þú gerir eitt­hvað í málinu. Það er ekki ríkis­stjórnin sem mun koma okkur úr þessu, það er ekki heil­brigðis­kerfið sem mun koma okkur úr þessu, þetta er ekki ferða­mönnum að kenna. Þetta er á okkar á­byrgð.“