Listakonan Kitty Von-Sometime segir mikilvægt að fólk fylgi sóttvarnareglum svo COVID-19 faraldurinn verði ekki útbreiddari í samfélaginu en hún hefur síðustu daga tekið eftir fjölmörgum sem fylgja ekki reglum um fjarlægðarmörk og grímunotkun. „Þetta er mjög einfalt. Þetta eru tveir metrar og ef þú getur ekki haldið þeim þá notar þú grímu,“ segir Kitty í samtali við Fréttablaðið.
Hún tekur sem dæmi veitingastað þar sem engar ráðstafanir voru gerðar til að fylgja þeim reglum sem tilkynntar voru fyrir helgi. Að sögn Kitty var þess ekki gætt að tveir metrar væru á milli viðskiptavina auk þess sem þjónarnir, sem þurfa að nota grímur þar sem ekki er hægt að tryggja tvo metra, voru ekki með grímurnar rétt á sér.
„Þjónarnir voru með grímur á sér þannig að þau vissu að þau þyrftu þess en það var ekki verið að nota þær rétt,“ segir Kitty og bætir við að vaktstjórinn hafi sjálf haft grímuna hangandi á öðru eyranu. Þá hafi starfsfólkið hallað sér yfir viðskiptavini meðan þau voru ekki með grímu. „Meira að segja dóttur minni, sem er tíu ára, blöskraði.“
Nauðsynlegt að samfélagið vakni
Kitty hefur þurft að kynna sér reglurnar ítarlega en hún vinnur nú að kvikmynd sem þarfnast leyfis frá Landlæknisembættinu svo hægt sé að ganga úr skugga um að fyllsta öryggis sé gætt. Hún segir ljóst að um alvarlegt ástand sé að ræða en að fólk sé ekki nógu meðvitað um það.
„Ég fór líka í Kringluna í gær og ég mér blöskraði. Það er enginn að taka þessum reglum alvarlega,“ segir Kitty og bætir við að fólk hafi sérstaklega horft á hana því hún var með grímu þrátt fyrir að aðstæður í verslunarmiðstöðinni voru með því móti að ekki væri hægt að tryggja tvo metra á milli einstaklinga.
Hún segir það vera nauðsynlegt að fólk vakni og geri sér grein fyrir ástandinu þar sem veiran er að öllum líkindum ekki að fara neitt. Þá muni það reynast erfitt að glíma við faraldurinn og afleiðingar hans þegar veturinn, og myrkrið sem honum fylgir, kemur. „Þetta verður miklu verra.“
Allir þurfa að taka þátt
„Ég tala reglulega við fjölskyldu mína í Bretlandi og ég veit hver staðan er þar, þetta er algjörlega hræðilegt og líf fólks hafa verið eyðilögð,“ segir Kitty. Hún segir íbúa hafa verið heppna með að samfélagið hafi ekki orðið fyrir frekari áhrifum en að opnun landamæra og vilji stjórnvalda til að koma ferðamálaiðnaðinum aftur af stað hafi skemmt það.
„Mér finnst bara að við sem búum hér viljum ekki sætta okkur við það að þetta sé mjög alvarleg staða sem krefst þess að allir taki þátt,“ segir Kitty en hún segir ljóst að faraldurinn muni fylgja landsmönnum til lengri tíma. „Ef fólk viðheldur ekki þessum takmörkunum þá munum við verða í sömu stöðu og Bandaríkin og Bretland eru í.“
Nauðsynlegt að ítreka reglurnar
Aðspurð um hvort að sóttvarnayfirvöld þurfi að skerpa á þeim reglum sem eru í gildi segir Kitty svo vera en hún telur yfirvöld ekki hafa verið nógu skýr þegar kemur að reglunum. „Þau hafa ekki ítrekað þetta nógu kröftuglega, tveggja metra reglan er skylda. Það er ekki valkvætt, þú getur ekki forðast það, þetta er skylda og það er skylda að nota grímu ef þú getur ekki haldið tveggja metra fjarlægð.“
„Þetta þarf að standa á strætóum, þetta þarf að vera fremst í öllum fjölmiðlum og það þarf að ávarpa þetta á skýran hátt,“ segir Kitty. Hún skilur vel að fólk vilji halda sem flestum stöðum opnum en staðan sé einfaldlega sú að eitthvað þurfi að gera.
Hún er þó bjartsýn um að Ísland geti tekið á faraldrinum en til þess þurfi allir að vera samtaka. „Fólk var mjög duglegt, okkur tókst að koma þessu frá, áður en við opnuðum landið á ný, en fólk hefur aðeins gleymt sér. Ég held að þar sem við teljum þetta vera „auðvelt“ hérna að þá vísar fólk þessu bara frá og segir þetta reddast.“
„Það er ekkert „þetta reddast“ hérna. Þetta reddast bara ef þú gerir eitthvað í málinu. Það er ekki ríkisstjórnin sem mun koma okkur úr þessu, það er ekki heilbrigðiskerfið sem mun koma okkur úr þessu, þetta er ekki ferðamönnum að kenna. Þetta er á okkar ábyrgð.“