Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hvetur fólk til að halda ekki í sér með að fara í sýnatöku fram yfir helgi. Á upplýsingafundi almannavarna sagði Óskar það valda sér áhyggjum hversu færri sýnatökurnar eru um helgar en á virkum dögum og velti því fram hvort að það væri vegna þess að fólk væri að bíða til mánudags með sýnatökuna. Væri það smitað væri það alvarlegt. Hann sagði það mikilvægt, samfélagslega, að fólk kæmi eins fljótt í sýnatöku og það finni fyrir einkennum.
Hann sagði að þetta gangi yfirleitt mjög hratt fyrir sig. Fólk fái staðfestingu í símann og það séu ekki langar raðir í sýnatökuna sjálfa. Svo sé kerfið mjög hraðvirkt og að niðurstaðan berist yfirleitt á næsta sólarhringnum.
Spurður um sýnatöku um jólin sagði hann að heilsugæslan væri nú að fara yfir hvernig henni væri háttað en sagði að það yrði reynt að takmarka lokanir og að þau myndu halda áfram að sinna skimun.
Óskar fjallaði í erindi sínu um ýmis langvinn áhrif COVID-19 sem hefur verið fjallað um erlendis eins og að minna eftirlit sé með langvinnum sjúkdómum og færri greiningar, eins og á krabbameinum. Hann sagði það ekki eiga við hérlendis og ítrekaði það sem áður hefur verið sagt að fólk ætti ekki að hika við að hafa samband við heilsugæsluna ef eitthvað ami að. Það sé best að byrja á því að hringja en svo fái fólk tíma ef það þarf að kanna málið betur.
Hann sagði að vel væri gætt að öllum sóttvörnum á heilsugæslustöðvunum og að fólk þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því.