„Þetta er tóm lygi, þessar konur eru svikakvendi, en aftur á móti hef ég haft í flimtingum oftar en einu sinni að ég hafi aldrei tekið á konu nema undir sæng við eðlilegar aðstæður. En það er helber lygi að ég hafi beitt þær ofbeldi.“

Þetta sagði Hjörleifur Hallgríms Herbertsson, fyrrverandi ritstjóri Vikudags á Akureyri og kosningastjóri Flokks fólksins, í gærkvöld. Nokkru áður var hann borinn þungum sökum á fundi þriggja kvenna í forystusveit flokksins. Þær héldu blaðamannafund til að varpa ljósi á upplifun sína og líðan síðustu mánuði.

Harðar ásakanir og hótanir um lögreglurannsóknir ganga á víxl. Málfríður Þórðardóttir, Tinna Guðmundsdóttir og Hannesína Scheving, sem skipa sæti ofarlega á lista Flokks fólksins á Akureyri, sögðu á blaðamannafundinum að Hjörleifur hefði áreitt þær kynferðislega og margítrekað. Frekari trúnaðarbrestur hefði svo orðið þegar þær ræddu samskiptin og afleiðingar þeirra við Brynjólf Ingvarsson, oddvita og bæjarfulltrúa, og Jón Hjaltason sem skipar þriðja sætið. Jón hefði öskrað og látið skap sitt bitna á húsgögnum.

Áhöfnin geti ekki unnið saman

Guðmundur Ingi Kristinsson, varaformaður Flokks fólksins, sagði í samtali við Fréttablaðið í gærkvöld að stjórn flokksins þyrfti að „klára þetta mál“. „Já, það virðist ljóst að þessi áhöfn geti ekki unnið saman eftir það sem á undan er gengið.“

Spurður um þau ummæli Jóns Hjaltasonar að hann og Brynjólfur muni hætta í flokknum og ganga óháðir til leiks í bæjarstjórn ef Guðmundur Ingi og Inga Sæland biðji þá ekki afsökunar á ummælum og inngripum, segir Guðmundur Ingi:

„Ég mun ekki biðjast afsökunar á einu né neinu. Ef þeir vilja segja sig úr flokknum er það þeirra mál.“

„Við höfum allar þrjár verið kallaðar öllum illum nöfnum,“

Fram kom á blaðamannafundinum að kosningastjórinn Hjörleifur hefði margoft reynt að fá eina kvennanna til að verja með sér kvöldstund einsamalli. Þegar hún benti á að hún ætti lítið barn hefði Hjörleifur sagt að barnið gæti komið með.

Þá sögðu konurnar að Brynjólfur, sem er fyrrverandi geðlæknir, hefði nefnt að starfsleyfi þeirra kynni að vera í hættu þegar þær kvörtuðu undan Hjörleifi. Konurnar þrjár eru allar heilbrigðisstarfsmenn.

„Við höfum allar þrjár verið kallaðar öllum illum nöfnum,“ segja konurnar.

Ekki afráðið að kæra

Fréttablaðið spurði hvort þær hygðust kæra Hjörleif til lögreglu. Þær sögðu það ekki afráðið. Varðandi ásökun þeirra um að Brynjólfur hefði sem fyrrverandi geðlæknir til áratuga misbeitt stöðu sinni í umræðu um að þær gætu misst starfsleyfi sín, þar sem þær eru allar heilbrigðisstarfsmenn, sögðu þær að hótun hefði falist í ummælum Brynjólfs í þeirra garð. Hún væri mjög alvarleg