Flestir fatlaðir mega búast við því að vera beittir ofbeldi einhvern tíma á lífsleiðinni, að sögn Ingu Bjarkar Margrétar Bjarna­dóttur, fram­bjóðanda Sam­fylkingarinnar í Suð­vestur­kjör­dæmi og bar­áttu­konu fyrir réttindum fatlaðs fólks.

Þetta kemur fram í við­tali við Ingu í kvöld­fréttum Stöðvar 2.

Þá hefur tilkynningum um ofbeldisbrot gegn fötluðum fjölgað mjög á milli ára. 1804 erindi bárust til réttinda­gæslu­manna fatlaðra í fyrra og hefur þeim fjölgað mjög síðan en það sem af er ári hafa 2070 til­kynningar um of­beldis­mál gegn fötluðum borist.

„Þessar tölur eru auð­vitað mjög ógn­vekjandi og sér­stak­lega í því ljósi að þetta eru til­kynnt brot þannig að við höfum engar raun­veru­legar tölur um hversu mörg brot eru raun­veru­lega, þetta eru bara þau sem eru til­kynnt til réttinda­gæslunnar,“ segir Inga.

Hún býst við því að brotin séu tals­vert fleiri í raun en að sögn Ingu getur flest fatlað fólk gert ráð fyrir að verða fyrir of­beldi ein­hvern tíma á lífs­leiðinni.

„Það er þetta al­menna of­beldi sem við þekkjum úr um­ræðunni sem er heimilis­of­beldi og kyn­ferðis­of­beldi. En svo er það auð­vitað sér­stakt of­beldi sem að fatlað fólk verður fyrir sem ó­fatlað fólk þar ekki að búa við,” segir hún.

„Það er frelsis­svipting, það er verið að taka af því hjálpar­tæki sem eru þeim lífs­nauð­syn­leg, það er verið að neita þeim um að­stoð, til dæmis til að komast í bað, á klósettið eða jafn­vel að borða,“ heldur hún á­fram og segir að hvers kyns þvinganir sem fatlað fólk verði fyrir sé í raun of­beldi.

Inga segir að já­kvætt skref hafi verið tekið í byrjun þessa árs með nýrri skýrslu en síðan þá hafi lítið gerst.

Þá segir hún kerfið í heild sinni ná illa utan um of­beldis­mál fatlaðra:

„Kvenna­at­hvarfið hefur verið ó­að­gengi­legt fyrir konur í hjóla­stól. Stuðningur við konur með þroska­hömlun sem hafa orðið fyrir kyn­ferðis­of­beldi er mjög tak­markaður. Við erum að sjá það að lög­reglan getur gert

miklu betur í hvernig hún tekur utan um og rann­sakar mál sem varða fatlaða þol­endur.“

Að lokum nefnir hún dóms­kerfið en mun ó­lík­legra er að menn séu sak­felldir fyrir brot gegn fötluðum en ó­fötluðum.