Tryggvi Guðjón Ingason, formaður Sálfræðingafélags Íslands, segir biðlistamenninguna sem skapast hefur innan heilbrigðiskerfisins fyrst og fremst afleiðingu fjárskorts. Þá sé mannekla einnig stórt vandamál. Líkt og með aðra starfsmenn innan heilbrigðisþjónustunnar séu sálfræðingar að flýja stéttina.
„Biðlistar eftir þjónustu sálfræðinga eru búnir að vera lengi, þetta er ekki nýtt vandamál. Aðalatriðið er að það vantar fjármagn inn í kerfið þannig að hægt sé að sinna þessari þjónustu betur. Það er vöntun á sálfræðingum eins og hjá öðrum heilbrigðisstéttum og þar kemur fjármagn sterkt inn, til að geta greitt betri laun og fjölgað stöðum,“ segir Tryggvi.
Að sögn Tryggva er sá rammasamningur um sálfræðiþjónustu sem Sjúkratryggingar Íslands bjóða sálfræðingum langt frá því að vera fullnægjandi, sem leiði af sér að sífellt færri sálfræðingar kjósi að gera slíkan samning við Sjúkratryggingar.
„Í dag er samningurinn ekki að ná markmiðum sínum. Það vantaði meira samráð við okkur sálfræðinga áður samningurinn kláraðist til þess að geta gert hann betri, þannig að hann sé nógu góður til að sálfræðingar vilji fara á hann,“ segir Tryggvi.
„Það er þó búið að víkka samninginn út og setja inn sálfræðinga á heilsugæsluna svo fleiri aðilar geti sótt þjónustu í þennan samning, sem er mjög jákvætt,“ bætir hann við.
Í síðustu viku sat Tryggvi, ásamt fulltrúum Sálfræðingafélags Íslands, fund með Willum Þór Þórssyni, heilbrigðisráðherra, meðal annars vegna stöðunnar sem hefur skapast þegar kemur að sálfræðiþjónustu.
„Við áttum gott samtal og það er mikill vilji til þess að gera betur frá öllum aðilum. Það er það sem við erum að fara af stað í og ég geri ráð fyrir að verði gert á næstunni. Markmiðið er að sjálfsögðu að það fari fleiri sálfræðingar á samning og við munum vinna í átt að því,“ segir Tryggvi. Þá standi til að endurskoða samninginn við Sjúkratrygginga Íslands.
Tryggvi segist fagna þeirri vitundarvakningu sem hefur orðið í geðheilbrigðismálum á síðustu árum, bæði meðal almennings og innan stjórnsýslunnar. Þó telur hann að þörf sé á ákveðinni viðhorfsbreytingu varðandi fjármögnun heilbrigðískerfisins.
„Við erum ekki að setja nægilega mikið fjármagn í heilbrigðiskerfið í heild sinni. Svo ég tali nú ekki um geðheilbrigðiskerfið. Við erum að setja minna fjármagn varðandi tekjur ríkisins í heilbrigðiskerfið samanborið við aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við, eins og Norðurlandaþjóðirnar eða Bretland,“ segir hann.
„Það þarf bara kröftuglegt fjármagn inn í kerfið, sérstaklega geðheilbrigðiskerfið, til þess að grípa af stað. Við höfum ekki verið að byggja upp innviðina. Það þarf að vera meiri hvati fyrir fólk að fara í nám innan heilbrigðisgeirans og þar kemur inn laun og aðstæður. Til þess að fólk geti eða vilji koma og læra og vera inn í heilbrigðiskerfinu þurfa þeir að fá laun sambærileg öðrum geirum,“ bætir hann við.
Rætt var við Tryggva á Fréttavaktinni á Hringbraut, sem er sýnd öll kvöld klukkan 18:30. Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Tryggva í heild sinni