Aðalmeðferð í máli Frigusar II gegn Lindarhvoli og íslenska ríkinu vegna Klakka ehf. hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun.

Fyrstur í vitnastúku var Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður Lindarhvols og ríkisins í málinu.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók málefni Lindarhvols upp í umræðum um störf þingsins í gær og vísaði til réttarhaldsins í héraðsdómi.

Helga Vala rifjaði upp að fjármálaráðherra hefði stofnað Lindarhvol til að koma í verð þeim eignum sem féllu ríkissjóði í skaut eftir samninga við slitabú föllnu bankanna. Sagði hún fjármálaráðherra hafa fengið trúnaðarvin sinn til að stýra félaginu og vísaði þar til vinasambands Bjarna Benediktssonar og Steinars Þórs Guðgeirssonar.

Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður ríkisins, gaf vitnaskýrslu í 90 mínútur í gær.
Fréttablaðið/Ernir

Helga Vala sagði spurningar hafa vaknað um starfsemi Lindarhvols og Sigurður Þórðarson, sem settur var ríkisendurskoðandi vegna vanhæfis þáverandi ríkisendurskoðanda, hafi skilað skýrslu um hvers hann varð áskynja við rannsóknina en núverandi og fyrrverandi forseti Alþingis hafa enn ekki leyft birtingu þessarar skýrslu, þrátt fyrir ákvörðun forsætisnefndar þar um. Mögulega komi í ljós morgun þegar Sigurður Þórðarson ber vitni í málinu hvað stóð í skýrslunni.

„Dómsmálið snýst um ákvarðanir stjórnenda Lindarhvols um hverjir fengu að kaupa og á hvað. Þá vill svo ótrúlega til að stjórnandi Lindarhvols er fenginn Ad Hoc, til að starfa sem ríkislögmaður og annast þannig vörn íslenska ríkisins og Lindarhvols gagnvart sókn gegn hans eigin ákvörðunum,“ sagði Helga Vala.Aðalmeðferð málsins lýkur í dag.