„Íslendingar hafa tækifæri til að gera það rétta í fiskeldismálum en þeir eru ekki að því núna,“ segir bandaríski fjallgöngugarpurinn, umhverfissinninn og milljarðamæringurinn Yvon Chouinard. „Á heimsvísu er fiskeldi að fara á sömu braut og landbúnaður, þar sem við höfum verið að gera þetta rangt ansi lengi. Núna erum við rétt farin að átta okkur á betri leiðum í landbúnaði. En fiskeldi er enn eins og villta vestrið.“

Vill sjálfbærar lausnir í fiskeldi

Chouinard er afar gagnrýninn á fiskeldi í kvíum og á fundi sínum með forseta Íslands í gærmorgun kynnti hann fyrir honum nýjar leiðir til að stunda fiskeldi á sjálfbæran og vistvænan máta. „Ég tek þátt í að hjálpa nokkrum landeldisstöðvum í Kanada og Bandaríkjunum sem reyna að byggja á hringrásarhagkerfum,“ sagði hann. „Þar er reynt að mata fiskinn á úrgangi og forðast að skila úrgangi úr rekstrinum. Þessar eldisstöðvar eru ekki eins afkastamiklar og sjókvíar, en þær eru alveg sjálfbærar. Þær endurnýta allt vatnið og gefa af sér sterkari fiska án bætiefna.“

Chouinard telur að ef fleira fólk vissi hvað það væri að láta ofan í sig þegar það kaupir fisk úr sjókvíum myndi það súpa hveljur. „Verðið á fiskimjöli er orðið svo hátt að flestar þessar fiskeldisstöðvar hafa ekki efni á því,“ segir hann. „Þær fóðra fiskana með kjúklingi, erfðabreyttu korni og sojabaunum til þess að þeir fái nóg prótein. En fiskar eiga ekki að éta svoleiðis. Maður fær ekki úr þeim ómega-3 fitusýrur, heldur aðallega ómega-6, sem er vonda fitan.“

Chouinard segir að fiskeldi í sjókvíum hafi neikvæð áhrif á sjávarútveg.
Mynd/JónÖrnPálsson

Sjókvíar hafi slæm áhrif á sjávarútveg

Þá segir Chouinard að fiskeldi í sjókvíum hafi neikvæð áhrif á sjávarútveg vegna samkeppni greinanna um fiskifæðið.

„Kvíarnar nota eitthvað af fiskimjöli, sem er gert úr smáfiskum. Þær fá þessa smáfiska úr hafinu og taka þannig fæði frá villtum fiskum. Þess vegna hafa fiskistofnarnir á vesturmiðum Bandaríkjanna og Kanada hrunið. Svo eru þessir smærri og veikari kvía­fiskar að fjölga sér með villifiskum og útþynna genamengið.

Ef maður trúir á þróunarferli og náttúruval, þá erum við að snúa því við. Meðalstór kanadískur kóngalax var 30 til 50 pund en er núna bara tólf pund.

Ég er svartsýnn á að okkur takist nokkurn tímann að bjarga þessari plánetu,“ segir Chouinard. „En hafandi stundað áhættuíþróttir og oft lent í lífshættu hef ég eiginlega sætt mig við dauðann. Öll fyrirtæki leggja upp laupana og öll heimsveldi hrynja að lokum. Ég held að maður verði bara að sætta sig við að við munum ekki bjarga ísbjörnunum. Þá þyrftum við að bjarga öllu loftslaginu. Ég held að ef ungt fólk vinnur að raunverulegum lausnum á orsökum frekar en einkennum á göllum samfélagsins geti það lifað jákvæðu lífi."

Lýðræði enn heilbrigt á Íslandi

Ég lít á Ísland sem dæmi um það sem má gera rétt þegar lýðræði stefnir í eina átt,“ segir Chouinard. „Mér þætti ömurlegt að horfa á Ísland verða eins og hvert annað þrotlýðræði. Við erum með misheppnað lýðræði í Bandaríkjunum. Við eigum tveggja alda gamla stjórnarskrá sem virkar ekki lengur. Ísland er elsta lýðræðisríki í heimi og það ætti að reyna að leggjast á eitt til að stofna til nýrrar tegundar kapítalisma þar sem fyrirtæki vinna saman við að þróa hringrásarhagkerfi.“