„Mikilvægi fiskeldis í uppbyggingu byggðanna fyrir vestan og austan er staðreynd og ætti ekki að vera ágreiningsmál,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála í stöðuuppfærslu á Facebook.

Hann rekur að yfir 300 störf sé beintengd fiskeldinu á sunnanvörðum Vestfjörðum auka tuga starfa í Ölfusi og Þorlákshöfn. Fram til ársins 2012 hafi verið viðvarandi fólksfækkun á sunnanverðum Vestfjörðum. Með tilkomu fiskeldis hafi sú þróun snúist við.

Sigurður Ingi segir að fiskeldið sé einnig að hafa jákvæða byggða- og íbúaþróun á sunnanverðum Austfjörðum. „Það er mikilvægt að allir átti sig á raunstöðunni og mikilvægi þess að atvinna sé til staðar. Í öðrum löndum höfum við séð nákvæmlega sömu þróun - þ.e. að svæði sem áður máttu þola fólksfækkun hafa nú snúið við með uppbyggingu fiskeldis á þeim svæðum. - Allir eru sammála um mikilvægi þess að byggja fiskeldið upp á varkárinn og sjálfbæran hátt - ekki síst innan greinarinnar sjálfrar,“ skrifar Sigurður Ingi.

Hann segir ekki óeðlilegt að skiptar skoðanir séu á einstökum atvinugreinum. Gera verði hins vegar þá kröfu að þeir sem fjalli um málin fari ekki með rangt mál. Með þeim orðum vísar hann til orða Óttars Yngvasonar, lögmanns náttúruverndarsamtaka og veiðiréttahafa. Hann sagði á RÚV í vikunni að sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði heyrði sögunni til eftir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem afturkallaði starfsleyfi eldisfyrirtækjanna á svæðinu. Hann sagði að mikilvægi eldisins væri ekki svo mikið á Vestfjörðum og að í raun væru störfin aðeins fimm til tíu á Patreksfirði og kannski 25 í Arnarfirði.

Sigurður Ingi segir að mikilvægi fiskeldis í uppbyggingu byggðanna fyrir vestan og austan sé staðreynd og um það eigi ekki að deila. „Það má því vera öllum ljóst að finna þarf skynsamlegar lausnir á núverandi stöðu.“