Vinnufundur Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands, og Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands, hófst í gær

Fundað var í Norræna húsinu en síðar var boðið til opinnar málstofu í Þjóðminjasafninu. Tilgangur heimsóknarinnar er að ræða aðildarumsókn Finna að Atlantshafsbandalaginu og öryggismál í Evrópu. Einnig voru samstarfsmöguleikar þjóðanna ræddir.

Möguleg samstarfsverkefni varða stöðu geðheilbrigðismála hjá ungu fólki og baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Sagði Katrín að löndin stefndu á að vinna saman gegn einelti og ofbeldi á internetinu.

Sanna Marin undirstrikaði sérstaklega mikilvægi aðildarviðræðna Finnlands og Svíþjóðar við NATO.

„Finnar munu ganga í NATO í nafni friðar,“ sagði Sanna Marin og ítrekaði að innganga landanna í NATO ætti að tryggja öryggi en ekki auka á óvinsemd gegn Rússlandi.

Sanna Marin sagði að þar sem Finnland deili lengstu landamærum nokkurrar Norðurlandaþjóðar með Rússum væri aðild landsins að NATO nauðsynleg. Innrás Rússa hafi kollvarpað veruleika Finna sem nú séu mun hlynntari aðild.

„Áður voru það einungis 20 prósent sem vildu ganga í NATO en nú er það í kringum 80 prósent,“ sagði Sanna Marin við blaðamenn.