Alma íbúðafélag segist nauðbeygt til að hækka leiguverð á þeim samningum sem séu að renna út, sökum núverandi efnahagsástands. Þá harmi félagið þá stöðu sem komin sé upp hjá einum viðskiptavina sinna sem fjölmiðlar hafi fjallað um í fréttum síðustu daga. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ingólfi Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Ölmu íbúðafélags.
Fyrr í vikunni greindi Fréttablaðið frá máli Brynju Bjarnadóttur, 65 ára einstæðrar konu og sjúklings, sem fékk heldur dapurlega jólagjöf frá Ölmu íbúðafélagi í tölvupósti í lok síðasta mánaðar, þegar henni var tilkynnt um 75 þúsund króna hækkun á leiguverði á íbúð hennar við Hverfisgötu.
„Ég var nú búin að sætta mig vita að geta ekki haldið jól vegna peningaleysis en ég bjóst ekki við því að ég færi á götuna líka,“ sagði Brynja í samtali við Fréttablaðið.
Samkvæmt núverandi samningi hennar þá greiðir Brynja rúmlega 250 þúsund krónur á mánuði í leigu. Alma býður henni hins vegar endurnýjun á leigusamningi með 325 þúsund króna grunnleiguverði.
Brynja er öryrki og fær 325 þúsund krónur í framfærslu í hverjum mánuði og segir hún það rétt duga fyrir húsaleigunni. Aðspurð um skýringarnar sem leigufélagið gefi vegna hækkunarinnar segir Brynja þær engar. „Þetta er bara peningagræðgi.“
Í fréttatilkynningu frá Ölmu segir að íbúðafélagið hafi á undanförnum árum reynt að koma til móts við þarfir viðskiptavina sinna, meðal annars með því að fresta fyrirhuguðum verðhækkunum og bjóða upp á dreifingu á leigu þegar kórónuveirufaraldurinn gekk yfir.
„Um mitt ár, þegar aukin óvissa var í efnahagslífinu, bauð félagið áframhaldandi leigusamninga á óbreyttum kjörum sem flestir viðskiptavina þáðu. Almennt reynir Alma að sýna viðskiptavinum sínum sveigjanleika ef aðstæður breytast, þó það takist ekki alltaf,“ segir í tilkynningunni.
Þá sé Alma íbúðafélag nauðbeygt til að hækka leiguverð á þeim samningum sem séu að renna út.
„Alma mun eftir fremsta megni reyna að halda þeim hækkunum í lágmarki. Þess ber þó að halda til haga að sú hækkun sem fjölmiðlar hafa fjallað um endurspeglar ekki almennt þær verðhækkanir sem Alma hefur þurft að ráðast í. Leiguverð íbúða og hækkanir miðast við stærð, staðsetningu og ástand, óháð því hver leigir þær,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að íbúðafélagið Alma starfi á almennum leigumarkaði, þjónusti ákveðinn hóp leigjenda og sé einungis með um fjögur prósent af leigumarkaðinum með um eitt þúsund manns í viðskiptum.
„Alma býður upp á hátt þjónustustig, þar á meðal þjónustu allan sólarhringinn. Alma leitar stöðugt nýrra leiða til að bæta ferla og mun nota þetta tækifæri til að endurskoða verklag við endurnýjun samninga,“ segir í tilkynningunni.
Þá sé hagnaður félagsins fyrir síðasta ár, sem fjölmiðlar hafi tengt við stöðu á leigumarkaði, að mestu leyti tilkominn vegna matsbreytinga á eignum og hækkun verðbréfa í skráðu félögunum Reitum, Regin og Eik, sem Alma á hlut í auk annars reksturs.