Landsréttur vísaði í síðustu viku frá faðernismáli manns sem Héraðsdómur Reykjaness hafði jafnframt vísað frá. Maðurinn hafði krafist þess að hann yrði dæmdur faðir barns að undangenginni mannerfðafræðilegri rannsókn.
Barnsmóðirin vill meina að fullyrðingar mannsins, um að hann sé faðir barns hennar, séu tilhæfulaus skáldskapur settur fram til þess eins að valda stefndu sem mestum óþægindum og í þeim tilgangi að eyðileggja hjónaband hennar og raunverulegs föður barnsins.
Jafnframt sagði hún manninn af ásótt sig til fjölda ára, og hefði það verið til meðferðar hjá lögreglu. Maðurinn hafi verið látinn sæta nálgunarbanni vegna þess.
Maðurinn heldur því fram að hann og konan hafi tvisvar sinnum átt í kynferðislegum samskiptum um kvöld árið 2015. Hann segir þau ekki hafa notað getnaðarvarnir og telur því að barnið haf verið getið í umrædd skipti.
Konan er sammála því að einhver kynni hafi verið þeirra á milli þetta ár.
Auk þess fullyrðir maðurinn að konan hafi tjáð honum, þegar hún komst að því að hún væri ólétt, að enginn annar en hann kæmi til greina sem faðir barnsins. Hann telur því yfirgnæfandi líkur á því að hann sé faðirinn og vill fá úr því skorið með mannerfðafræðilegri rannsókn.
Konan lagði þó fram niðurstöðu rannsóknar frá danska fyrirtækinu DNA-Forensics um að 99.9999 prósent líkur væru á því að eiginmaður hennar, sem er skráður faðir barnsins, væri blóðfaðir þess. Önnur rannsókn frá Íslenskri erfðagreiningu bentu til sömu niðurstöðu.