Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir breytingar á rammaáætlun, áætlun stjórnvalda um vernd og orkunýtingu landsvæða, vera eingöngu pólitískar.

Meiri­hluti um­hverfis- og sam­göngu­nefndar sam­þykkti í síðustu viku breytingar­til­lögur ríkis­stjórnar­flokkanna. Virkjunar­kostir hafa verið færðir á milli flokka, ýmist úr nýtingar­flokki í bið­flokk eða úr verndarflokki í biðflokk.

„Og 80 prósent af þeirri raforku sem við framleiðum fer til stóriðju.“

„Tilgangurinn með því að færa eitthvað úr vernd í bið er auðvitað að virkjanaaðilar vonast til þess að þetta verði síðar fært í nýtingarflokk,“ segir Auður í samtali við Lindu Blöndal í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

Auður segir engin ný gögn hafa komið fram sem styðji við þá ákvörðun að færa til dæmis Þjórsárver eða Héraðsvötn yfir í biðflokk.

„Vegna þess að í álitinu reynir meirihlutinn ekki einu sinni að rökstyðja hvers vegna hann gerir þessar tilfærslur,“ segir Auður.

Tæplega 80 prósent af raforku fer til stóriðju samkvæmt Orkustofnun.

Framboðsskortur eða forgangsröðun

Íslendingar eru langstærsti framleiðandi raforku heims á íbúa. „Og 80 prósent af þeirri raforku sem við framleiðum fer til stóriðju. Hún fer ekki til íslensk samfélags.“

Auður segir mikilvægt að skoða málið í heildarsamhengi. Hún veltir fyrir sér hvað það sé raunverulega sem ógni raforkuöryggi. „Er það framboðsskortur eða hvernig við forgangsröðum orkunni?“

Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni í Fréttavaktinni á Hringbraut klukkan 18:30 í kvöld.