„Við gerðum það sem okkur var sagt,“ segir Guðrún Niel­sen. Hún var skikkuð í fjórtán daga sóttkví á farsóttarsjúkrahúsi í Danmörku árið 1970 eftir að ungur Norðmaður kom til Danmerkur smitaður af bólusótt. Ungi Norðmaðurinn mætti hálflasinn í stúdentapartí í Kaupmannahöfn. Hann hafði smitast af bólusótt í Afganistan en talið var að hann hefði náð bata.

Sú var ekki raunin og var hann fluttur í stranga einangrun eftir að hann var greindur með sóttina að nýju. „Þetta var risavaxið dæmi, því hann hafði verið í sambandi við fullt af fólki á mörgum mismunandi stöðum,“ segir Guðrún en 589 manns höfðu orðið útsett fyrir bólusótt eftir samskipti við manninn.120 manns sættu sóttkví á Blegdams-sjúkrahúsinu, þar á meðal sjö Íslendingar og fjórar íslenskar stúlkur sem voru nýfarnar til Íslands.

Þær sættu sóttkví á Vífilsstaðaspítala. Útsettu fólkinu var smalað í rútur og flutt á sjúkrahúsið þar sem Guðrún segir hermenn og hjúkrunarfólk hafa tekið á móti þeim.„Þetta er ekki allt skýrt sem bjartur dagur í minningunni en ég var ekki óróleg vegna þessa, þetta var meir eins og smá ævintýr, auk þess fengum við frí í vinnunni sem mér þótti ekki slæmt,“ segir Guðrún og bætir við að enginn hafi „vælt yfir því að þurfa að fara í sóttkví“.

„Í minningunni er ég komin á áfangastað, stend ber í röð í herbergi fullu af nöktum konum með fataböggul minn í fanginu,“ segir Guðrún sem man vel eftir því hverju hún klæddist þennan dag, brúnum tvíd-jakkafötum sem hún hafði keypt í Karnabæ.

„Ég man vel þegar við fengum fatapokana okkar aftur. Öllu hafði verið skellt í þvott, sennilega sett á suðu og fallegu jakkafötin mín voru ónýt, öll krumpuð og þæfð, en hrein,“ segir Guðrún. Þá segir hún fólkið í sóttkvínni ekki hafa spáð í fjölda daganna sem það neyddist til að dvelja á sjúkrahúsinu, tíminn hafi liðið fyrirhafnarlaust.

Útvarp var í herberginu en ekkert sjónvarp, þeim var færður matur inn á herbergi og þau fengu að fara út.Minnisstæð er Guðrúnu ítölsk kona sem var með henni á stofu, hún stytti henni stundir með sögum úr fyrri heimsstyrjöldinni og kenndi henni ýmis orð á ítölsku.

„Ég man hvað hún hét og fyrir forvitnisakir gúglaði ég hana og fann út að hún var 72 ára gömul í sóttkvínni, fædd árið 1898 og hún lést tíu árum seinna í Vejle á Jótlandi.“

Samkvæmt upplýsingum úr grunni Danska hjúkrunarfræði-safnsins segir að enginn þeirra 589 sem settir voru í sóttkví hafi veikst af bólusótt en ungi Norðmaðurinn lést úr sjúkdómnum þann 21. september 1970. „Þessi sóttvarnaaðgerð var sett á laggirnar með aðeins klukkutíma fyrirvara, en það skilaði árangri,“ segir Guðrún.