Branka Aleksandarsdóttir vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar rútan, sem henni og þrettán ára dóttur hennar hafði verið vísað í í Leifsstöð, nam staðar í Þórunnartúni en ekki á BSÍ eins og hún hafði gert ráð fyrir. Þar var þeim vísað inn á nýtt sóttkvíarhótel og tilkynnt að þær þyrftu að dvelja þar í fimm daga sóttkví. Frá því að þær lentu á Keflavíkurflugvelli og þar til rútan kom með þær á sóttkvíarhótelið hafði enginn sagt þeim að þær þyrftu að taka sóttkvína út þar. Branka hefur krafist þess fyrir dómi að fá að taka sóttkvína út á heimili sínu og má búast við að héraðsdómur kveði upp dóm sinn á morgun.
„Það var enginn að segja okkur neitt og við vissum ekkert,“ segir Branka í samtali við Fréttablaðið. Þær mægður fóru út til Serbíu þann 27. mars til að vera viðstaddar jarðarför móður hennar. Þá höfðu núverandi reglur ekki tekið gildi, sem skikka alla sem koma til landsins frá rauðum eða gráum löndum til að taka sóttkví sína út á sóttkvíarhótelinu.
Erfiðast fyrir þrettán ára dótturina
„Þegar við lentum í Keflavík var allt orðið öðruvísi á flugvellinum en þegar við fórum út. Við fórum í PCR próf og síðan í vegabréfaeftirlitið þar sem verðirnir settu rauðan pappír í vegabréfið okkar og sögðu okkur að sýna lögreglunni. Ég var svolítið hissa á því að ég þyrfti að tala við lögregluna,“ segir Branka. „Við fórum svo að útganginum og þá tekur við okkur leið girt af með böndum og lögregla og starfsmenn klæddir Covid-búnaði sem vísa okkur beint upp í rútu.“
Hún hafi þá einfaldlega gert ráð fyrir að rútan færi með þær á BSÍ, því hún vissi ekki af nýju reglunum sem höfðu þá tekið gildi sama dag og þær lentu á landinu. Hún hafi ekki fylgst náið með þeim málum í fréttum síðustu daga enda upptekin við að syrgja og jarða móður sína. „Þetta hafa verið virkilega erfiðir dagar.“

„Við vissum alveg að við þyrftum að fara í sóttkví og vorum undirbúnar fyrir það en við ætluðum bara að vera heima þar sem við búum einar,“ segir Branka. Hún segir að staðan sé erfiðust fyrir dóttur sína, sem er þrettán ára gömul. Þær séu illa búnar, enda höfðu þær aðeins pakkað léttum klæðnaði fyrir fimm daga ferð í Serbíu.
Þrjú neikvæð próf á einni viku
„Ég skil bara ekki hvers vegna við megum ekki fara heim,“ segir hún þá. „Við erum búnar að fá neikvætt úr prófi.“ Og ekki bara einu prófi, heldur þremur á síðustu vikunni. Þær þurftu fyrst að fara í sýnatöku hér heima á Íslandi áður en þær fóru til Serbíu, þann 27. mars. Síðan urðu þær að fara í aðra sýnatöku í Serbíu fyrir heimferðina og svo aftur í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli. Öll sýnin hafa komið út neikvæð.
„Þegar við fengum neikvætt úr sýnatökunni í Keflavík hringdi ég í Rauða krossinn og bað um leyfi til að fara heim en nei við fáum það ekki. Svo athugaði ég hvort við mættum fá okkur ferskt loft eða fara eitthvað út en við megum það ekki heldur,“ segir hún. „Okkur líður hræðilega svona innilokuðum og aðstæðurnar hérna eru ekki boðlegar.“
Hálffrosinn lax í matinn
Hún segir matinn til dæmis einstaklega lélegan á hótelinu. „Þetta er búið að vera hálffrosið mest allt sem við höfum fengið. Við vorum að enda við að skila hérna óætum hálffrosnum Laxi aftur fyrir utan dyrnar hjá okkur.“
Hún vonast til að héraðsdómur verði við beiðni hennar um að vera sleppt af hótelinu. Fleiri en hún hafa sóst eftir því að dómurinn taki upp mál sín. Héraðsdómur ætti að kveða upp úrskurð í málunum á morgun.