Tekist var á um gildandi áfengislöggjöf í Sprengisandi í dag. Eyjólfur Ármannsson, alþingismaður Flokks fólksins, hafnaði því að nein lagaleg óvissa væri uppi um gildandi ástand eftir lok síðasta þingtímabils. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að aðstæður á áfengismarkaði væru gjörbreyttar með auknum vinsældum vefverslana og að það væri hlutverk löggjafans að bregðast við nýju markaðsumhverfi.

„Vefverslun með áfengi á Íslandi er smásala með áfengi á Íslandi,“ sagði Eyjólfur. „Það er alveg kristaltært. Áfengislög eru alveg skýr hvað það varðar að smásala með áfengi er í höndum ríkisins. Þeir hafa einkaleyfi til smásölu áfengis. Og það að halda að vefverslun sé eitthvað öðruvísi en önnur verslun er ekki rétt.“

„Netið er bara samskiptavettvangur til að panta vöru,“ hélt Eyjólfur áfram. „Salan fer fram á þeim stað þar sem varan er afhent. Ef erlendir aðilar geta selt áfengi á Íslandi er ekki innlendir er það skýrt brot á EES-samningnum.“

Eyjólfur sakaði RÚV um að hafa miðlað „áróðri“ síðan þingtímabilinu lauk án þess að frumvarp um að heimila smásölu vefverslana með áfengi næði fram að ganga. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur gefið út að hann muni leggja fram sambærilegt frumvarp í haust. Rekstraraðilar hafa haldið því fram að sem stendur sé netverslun áfengis á „gráu svæði“ og ekki liggi skýrt fyrir hvað megi og hvað ekki. Þessu hafnaði Eyjólfur alfarið.

„Það er engin lagaóvissa. Það á bara að framfylgja þessum lögum og ákæruvaldinu ber skylda að sjá til þess að þeir sem brjóta gegn þeim sæti lögmætum viðurlögum.“

Bryndís Haraldsdóttir harmaði það að frumvarpið, sem hún var meðflytjandi að, hefði ekki náð fram að ganga á þingtímabilinu. Hún benti á að óvissa hefði skapast þar sem vefverslun hefði orðið vinsæll verslunarvettvangur síðan innflutningur á áfengi til einkanota var heimilaður á tíunda áratugnum.

„Núna getur maður farið inn á vefsíðu bónda á Ítalíu og fengið vín sent heim samkvæmt þessum lögum. Ég skal ekki segja hvort þetta standist lög, en þetta er allavega verið að framkvæma þetta með þessum hætti hjá íslenskum söluaðilum líka. Og þeir eru þá að láta reyna á lagakerfið. Og ég tel að það sé þá okkar hlutverk sem sitjum hjá löggjafanum að laga og aðlaga löggjöfina að þessum breyttu aðstæðum.“