Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gagnrýnir forgangsröðun yfirvalda þegar kemur að bólusetningu vegna COVID-19, í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.
Kári segist telja það skringilegt að 60 ára og eldri séu í sjötta sæti á forgangslista stjórnvalda. Hann leggur til að 85 ára og eldri verði bólusettir fyrstir því þeir séu í mestri hættu ef þeir veikjast.
Líkt og fram hefur komið staðfesti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, síðastiliðinn föstudag reglugerð um forgangsröðun um bólusetningu. Var þar horft til viðmiða Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
Munu heilbrigðisstarfsmenn á bráðamóttöku og gjörgæsludeildum fá bóluefnið fyrstir, þar á eftir starfsmenn á COVID-19 göngudeildum. Einstaklingar 60 ára og eldri eru svo í sjötta sæti á forgangslistanum.
Kári segir þetta skjóta skökku við: „Vegna þess að þeir sem eru milli 60-70 ára er með innan við tvö prósent líkur á að deyja ef þeir sýkjast, 75 ára og eldri eru með 8,5% líkur á að deyja og 85 ára og eldri eru um 28% líkur á að deyja.“
Kári tekur fram að það sé ekki sitt hlutverk að segja Svandísi fyrir verkum. „Við erum með mjög góðan heilbrigðisráðherra og ég er alveg viss um að þegar hún fer að skoða þetta nánar þá hniki hún einhverju til, það væri mjög líkt henni.“