Fréttir

Segir ekki annað hægt en að elska Íslendinga

Ótrúlegur áhugi var á íslenska landsliðinu á æfingu liðsins og blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Argentínu í gær. Fjölmiðlasalurinn var fullur af fólki sem hefur gríðarlegan áhuga á liðinu. Það var létt yfir Heimi og fyrirliðanum á fundinum.

Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson á blaðamannafundinum í gær. Fréttablaðið/Eyþór

Það var þétt setið fjölmiðlaherbergi á Spartak-vellinum í Moskvu þegar Heimir Hallgrímsson, þjálfari og Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins sátu fyrir spurningum í gær. Samkvæmt fljótlegri hausatalningu blaðamanns voru rúmlega tvö hundruð manns í salnum en þar mátti finna blaðamenn frá löndum víðsvegar úr heiminum. Heimir sló inn á milli á létta strengi en afgreiddi strax spurningu sem brann eflaust á vörum allra erlendra blaðamanna sem hafa ekki hitt Heimi áður.

„Til að spara spurningar þá já, ég er ennþá tannlæknir, ég hætti aldrei að vera tannlæknir og ég vinn stundum á tannlæknastofunni.“

Íslenskir fjölmiðlamenn voru helst forvitnir um heilsu Arons Einars Gunnarssonar en fyrirliðinn segist vera kominn á góðan stað.

„Ég er búinn að æfa á fullu síðustu daga, mér líður vel og þótt að ég viti ekkert hvort að Heimir velji mig á morgun þá er ég á góðum stað og sé það á strákunum að þeir eru tilbúnir í þetta,“ sagði Aron en Heimir sagði að liðið hefði saknað hans.

„Hann er gríðarlega mikilvægur fyrir hópinn, það hefur sést á liðinu þegar hann er fjarverandi enda mikill leikstjórnandi. Hann hefur mikinn karakter og veitir strákunum sjálfstraust. Það eru allir þjálfarar heimsins að leita að leikmönnum eins og Aroni sem hefur hans hæfileika og er tilbúinn að fórna sér fyrir liðið.“

Kólumbískur fréttamaður lýsti yfir stuðningi kólumbísku þjóðarinnar og í raun frá stórum hluta Suður-Ameríku sem fell vel í geðið hjá þeim.

„Við finnum fyrir stuðningnum, ekki bara frá Kólumbíu heldur frá öllum heimnum. Það finnst öllum frábært að svona lítil þjóð geti komist á Heimsmeistaramótið. Það minnir okkur á afhverju knattspyrna er besta íþrótt heims og að svona margir fjölmiðlamenn eru á blaðamannafundi okkar er frábært,“ sagði Heimir og bætti við:

„Það er líka hægt að hugsa þetta þannig að það sé ekki hægt að elska ekki Ísland. Við höfum aldrei ráðist á neinn, ekki lent í stríði við neinn fyrir utan að hafa siglt á einn togara frá Englandi. Það er eina stríðið sem við höfum lent í svo það er ofboðslega auðvelt að elska okkur. Svo erum við brosmild þjóð og falleg þjóð yfir höfuð svo það er ekki annað hægt en að elska okkur,“ sagði Heimir brosmildur. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Eliza verður á Argentínu-leiknum en Guðni á Hrafns­eyri

Innlent

Kirkjuklukkurnar leika „Ég er kominn heim“ fyrir leikinn

Fréttablaðið

HM-blaðið fylgir með Fréttablaðinu

Auglýsing

Nýjast

Á­rásar­maðurinn myrti fimm manns á vinnu­stað í Illin­ois í gær

Fór illa út úr hruninu en vann 45 milljónir í vikunni

Reyndi að borða flug­miðann sinn

Fínt vetrar­veður fram eftir degi en hvessir í kvöld

Leiðar­vísir að Kata­lóna­réttar­höldunum

Réðist á gesti og starfs­fólk

Auglýsing