Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sögðu að eitthvað hefði miðað áfram í viðræðum við Tyrki til að fá þá til að láta af andstöðu sinni við inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið í dag.

„Almenna tilfinningin er sú að viðræðurnar hafi gengið aðeins betur, sem ætti að þýða að skilningur hafi aukist eitthvað hjá báðum aðilum,“ sagði Niinistö við fjölmiðla áður en hann hélt til Madrídar, þar sem hann mun funda ásamt Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Recep Tayyip Erdoğan, forseta Tyrklands, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, síðar í dag.

Ann Linde sagðist vona að samkomulag náist við Tyrki á fundinum. „Við erum viðbúin því að eitthvað jákvætt geti gerst í dag, en það gæti einnig tekið lengri tíma,“ sagði hún við Svenska Dagbladet. „Fari svo verðum við áfram þolinmóð og höldum áfram viðræðum eftir fundinn.“

Tyrkir hafa hingað til lýst sig mótfallna inngöngu Finna og Svía í NATO þar sem þeir telja þá styðja samtök sem Tyrkir skilgreina sem hryðjuverkasamtök, sér í lagi kúrdneskar þjóðernishreyfingar eins og Verkalýðsflokk Kúrda (PKK). Erdoğan hefur hótað að beita neitunarvaldi gegn inngöngu þeirra í bandalagið nema ríkin breyti um stefnu gagnvart slíkum hópum.

Fundur leiðtoganna fjögurra fer fram samhliða leiðtogafundi aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins sem hófst í Madríd í dag. Líklegt er að aðildarumsóknir Finna og Svía verði meðal helstu umræðuefnanna.