Isavia segir að kröfur sem Isavia setji rekstraraðilum hafi legið fyrir frá upphafi. Þær hafi komið fram á kynningarfundi fyrir tæpu ári og í öllum útboðsgögnum. Því hafi forsvarsmönnum Joe and the Juice mátt vera þetta ljóst áður en þeir drógu sig úr væntanlegu útboði á veitingaþjónustu í flugstöðinni í Keflavík.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá Isavia. Eins og Fréttablaðið greindi frá hafa forsvarsmenn Joe and the Juice gefist upp á Keflavíkurflugvelli, að eigin sögn vegna skilyrða Isavia um áfengissölu.

Í tilkynningu Isavia kemur fram að kröfurnar sem Isavia setji rekstrar­aðilum hafi legið fyrir frá upp­hafi og hafi komið fram á kynningar­fundi fyrir tæpu ári og í öllum út­boðs­gögnum.

Um sé að ræða út­boð á þremur veitinga­rýmum í flug­stöðinni, þar sem mis­munandi rekstrar­aðilar geti tekið höndum saman og unnið í sama rými til að upp­fylla þær kröfur.

„Sú krafa var því gerð að hvert rými fyrir sig af þessum þremur væri með áfengissölu, en útfærslan á því hvernig bjóðendur höguðu slíku væri fullkomlega í þeirra höndum,“ segir Guð­jón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.

For­svars­menn veitinga­staðarins Joe & the Juice hafa á­kveðið að draga sig úr út­boði um rekstur veitinga­staða á Kefla­víkur­flug­velli. Kröfur Isavia um að allir veitinga­staðir verði að bjóða upp á bæði á­fengi og til­búna rétti falli ekki að þeim grunn­gildum sem Joe & The Juice byggist á. Sölu­stöðunum tveim sem nú eru starfandi í flug­stöðinni verði af því lokað á næstu mánuðum.

Í frétta­til­kynningu frá fyrir­tækinu kemur fram að á­stæða á­kvörðunarinnar sé sú að Isavia setji skil­yrði um að allir þeir veitinga­staðir sem verði fyrir valinu í komandi út­boði þurfi að bjóða upp á bæði til­búna rétti og á­fengi.

„Joe and The Juice hefur ekki selt á­fengi á sínum stöðum og sömu­leiðis hefur staðurinn aldrei boðið upp á mat sem út­búinn var mörgum klukku­stundum áður. Þvert á móti er það eitt helsta ein­kenni staðarins að bjóða upp á eins ferskar sam­lokur og djúsa og mögu­legt er, sem út­búnar eru eftir pöntun,“ segir í til­kynningunni.

„Joe & The Juice hugnast ein­fald­lega ekki að gera þær breytingar á vöru­vali sínu sem Isavia setur kröfu um á Kefla­víkur­flug­velli.“