„Mætti minnast orðtaksins forna, að nú eru flestir sótraftar á sjó dregnir,“ segir Bergsveinn og bætir við að Finnbogi geri ekki næga grein fyrir máli sínu. Hann vísar til eldri samskipta milli sín og Finnboga, frá árinu 2010: „Þar sem Finnboga láist að gera nokkra grein fyrir málinu, er best að byrja á því, eins og ég reyndar gerði honum grein fyrir árið 2010 þegar hann bar þetta á mig fyrst, en hann hefur að því er virðist gleymt.“

Kveðst hafa orðin beint frá Steinólfi

Bergsveinn segir að Páll Valsson, sem nú starfar hjá Bjarti, hafi gengið endanlega frá bókinni til prentunar fyrir Þjóðsögu. „Þar nýtti Páll til dæmis bréf og skriftir Steinólfs sjálfs. Þar í sínum skrifum segir Steinólfur frá Snorraskjólum, þar sem konum slakna skaut.“

Hann segist ekki hafa orð sín úr bókinni heldur „beint úr frásagnargleði Steinólfs frænda míns sjálfs,“ og kveðst Bergsveinn lánsamur að hafa fengið að vera húsgangur á bæ Steinólfs í æsku.

„Sú saga, með þessu orðalagi, var mér sögð löngu áður en Finnbogi heyrði hana,“ segir Bergsveinn.

Vísaði til frænda síns í skáldsögu

„Sá sem á umrædd orð var nefnilega gæddur nokkru sem Finnbogi Hermannsson hefur farið á mis við, en það er frumleg hugsun,“ segir hann. „Bera orðin sjálf því vitni af hvers rótum renna. Kröfu Finnboga um eignarrétt á orðum Steinólfs mætti helst líkja við það, að ef einhver sem tæki þátt í að gefa út ljóð Einars Benediktssonar myndi eigna sér ljóð Einars Benediktssonar.“

Hann segir að um skáldsögu hafi verið að ræða og ekki fræðirit, en hann hafi þó getið Steinólfs í Fagradal í athugasemdum aftast í bókinni, sem eins af þeim góðu sagnabrunnum sem hann gat sótt í. Bergsveinn segir sjaldgæft að slíkt sé gert í skáldsögum.

Segir Finnboga hafa gefið út í óþökk afkomenda

„En úr því að Finnbogi Hermannsson vekur málið upp, er óhjákvæmilegt að geta þess hvernig hann sjálfur hefur komið fram gagnvart þessum látna frænda mínum og afkomendum hans. Þannig var mál með vexti að útgáfan Þjóðsaga var lögð niður nokkrum árum síðar, svo enginn var til að reka rétt þeirrar útgáfu,“ segir Bergsveinn. Hann segir Finnboga hafa nýtt tækifærið og tekið handritið að bók Steinólfs, „án þess að spyrja nokkurn mann,“ og Finnbogi hafi síðan gefið sjálfur út árið 2019.

Bergsveinn segir Finnboga hafa gætt þess að setja aðeins nafn sjálfs sín á bakvið copyright-merkið, og þar sé um hinn eina sanna stuld að ræða.

Hann segir Finnboga hafa unnið verkið í óþökk afkomenda Steinólfs og án þeirra samþykkis. Að lokum segir hann að afkomendurnir hljóti að teljast réttmætir eigendur verksins.

Þá bendir Gísli Einarsson sjónvarpsmaður á, í athugasemd við Facebookfærslu Nönnu Rögnvaldsdóttur um málið, að Steinólfur hafi sjálfur sagt þessa sömu sögu, með sama orðalagi í viðtali við hann fyrir mörgum árum:

„Það er rétt og reyndar sagði Steinólfur þessa sömu sögu, með sama orðalagi, í sjónvarpsviðtali sem ég tók við hann, einhverjum árum áður en bók Finnboga kom út,“ segir Gísli í athugasemd sinni.