Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, ætti að einbeita sér að sínum störfum og skyldum og einblína á að fjármagna bæði fangelsi og lögreglu heldur en að vera í „spælingarpólitík“ við stjórnarandstöðuflokkana. Tæplega 320 manns bíði nú afplánunar vegna dóma sem hafi fallið. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Helga Vala segir það liggja ljóst fyrir að bæði fangelsin og lögreglan séu verulega vanfjármögnuð.
„Lögreglan kallar eftir frekara fjármagni til að geta sinnt sínum störfum. Þá liggur fyrir að 320 manns um það bil bíða nú afplánunar vegna dóma sem hafa fallið, og þar á meðal eru alvarleg ofbeldisbrot og mögulega brot sem falla undir skipulagða glæpastarfsemi. Þannig að ég held að dómsmálaráðherra ætti aðeins að huga að því, að taka þetta fólk af götunum og leyfa þeim að hefja afplánun,“ segir Helga Vala.
Þá segir Helga Vala lögregluna ekki vera að kalla eftir heimild til að bera rafbyssur, líkt og dómsmálaráðherra leggur til í nýju frumvarpi. Slíkt sé eingöngu til þess fallið að skapa ótta.
„Þetta er hluti af þessu, að búa til eitthvað stríð og búa til einhvern ótta. Lögreglan er ekki að kalla eftir þessu. Ef lögreglan þarf einhverjar upplýsingar eða rannsóknarheimildir, þá fer lögreglan fyrir dómstóla. Þar eru góðir dómarar á vakt allan sólarhringinn alla daga ársins og sinna því að veita þessar heimildir. Þannig að við skulum byrja á réttum enda,“ segir Helga Vala.