Borgar­full­trúinn og mann­réttinda­lög­maðurinn, Magnús Davíð Norð­dahl segir að dóms­mála­ráð­herra hafi farið með rangt mál þegar hann sagði að allir ní­tján um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd sem voru sendir úr landi síðasta haust væru komnir til baka. Magnús segir það al­var­legt að dóms­mála­ráð­herra fari rangt með stað­reyndir.

Jón Gunnars­son dóms­mála­ráð­herra hélt því fram í við­tali við Frétta­blaðið að allir ní­tján um­sækj­endurnir um al­þjóð­lega vernd og voru sendir úr landi síðasta haust væru nú komnir aftur til landsins.

„Þetta er stjórn­leysi,“ sagði ráð­herrann og bætti við: „Þetta er hringa­vit­leysa. Við erum komin í ó­göngur sem þjóð á þessu sviði.“

Magnús fer með mál­efni nokkurra aðila sem var vísað úr landi í haust og stað­festir hann að nokkur þeirra eru enn í Grikk­landi. Að hans sögn var mál eins manns endur­upp­tekið nokkrum dögum eftir að honum var brott­vísað, með þeim hætti að hann hefði átt rétt á efnis­með­ferð.

„Ef að menn vilja tala um hringa­vit­leysu og stjórn­leysi, þá sér hver maður að það er ekki skil­virkni og ekki til þess gert að spara fjár­muni að henda aðila úr landi, sem ör­fáum dögum síðar fær úr­lausn sinna mála í kerfinu og kemur aftur til Ís­lands,“ segir Magnús og bætir við að stjórn­völd beri al­farið á­byrgðina á sóun fjár­muna og stjórn­leysinu í þessu máli.

Magnús segir að það sé lág­marks krafa að ráð­herrar fari rétt með stað­reyndir.

„Við hljótum að gera á­kveðnar kröfur til æðstu ráða­manna þjóðarinnar. Auð­vitað getum við haft ó­líkar skoðanir á alls konar hlutum og fellt gildis­dóma um það hvað sé hringa­vit­leysa og hvað sé stjórn­leysi og hvernig skuli fara með skatt­fé og svo fram­vegis. En það er lág­marks krafa að æðstu stjórn­endur ís­lenska ríkisins, þar með talið nú­verandi dóms­mála­ráð­herra, fari rétt með stað­reyndir,“ segir Magnús.

Magnús segir að dóms­mála­ráð­herra verði sjálfur að svara því hvers vegna hann fer rangt með stað­reyndir máls.

„Þetta er væntan­lega hluti af ein­hverri orð­ræðu í kringum það að koma frum­varpi um breytingar á lögum út­lendinga í gegn myndi ég halda. En auð­vitað verður dóms­mála­ráð­herra að svara því. Við getum ekki leyft æðstu ráða­mönnum ríkisins að komast upp með það að fara rangt með stað­reyndir í fjöl­miðlum,“ segir Magnús.