Borgarfulltrúinn og mannréttindalögmaðurinn, Magnús Davíð Norðdahl segir að dómsmálaráðherra hafi farið með rangt mál þegar hann sagði að allir nítján umsækjendur um alþjóðlega vernd sem voru sendir úr landi síðasta haust væru komnir til baka. Magnús segir það alvarlegt að dómsmálaráðherra fari rangt með staðreyndir.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hélt því fram í viðtali við Fréttablaðið að allir nítján umsækjendurnir um alþjóðlega vernd og voru sendir úr landi síðasta haust væru nú komnir aftur til landsins.
„Þetta er stjórnleysi,“ sagði ráðherrann og bætti við: „Þetta er hringavitleysa. Við erum komin í ógöngur sem þjóð á þessu sviði.“
Magnús fer með málefni nokkurra aðila sem var vísað úr landi í haust og staðfestir hann að nokkur þeirra eru enn í Grikklandi. Að hans sögn var mál eins manns endurupptekið nokkrum dögum eftir að honum var brottvísað, með þeim hætti að hann hefði átt rétt á efnismeðferð.
„Ef að menn vilja tala um hringavitleysu og stjórnleysi, þá sér hver maður að það er ekki skilvirkni og ekki til þess gert að spara fjármuni að henda aðila úr landi, sem örfáum dögum síðar fær úrlausn sinna mála í kerfinu og kemur aftur til Íslands,“ segir Magnús og bætir við að stjórnvöld beri alfarið ábyrgðina á sóun fjármuna og stjórnleysinu í þessu máli.
Magnús segir að það sé lágmarks krafa að ráðherrar fari rétt með staðreyndir.
„Við hljótum að gera ákveðnar kröfur til æðstu ráðamanna þjóðarinnar. Auðvitað getum við haft ólíkar skoðanir á alls konar hlutum og fellt gildisdóma um það hvað sé hringavitleysa og hvað sé stjórnleysi og hvernig skuli fara með skattfé og svo framvegis. En það er lágmarks krafa að æðstu stjórnendur íslenska ríkisins, þar með talið núverandi dómsmálaráðherra, fari rétt með staðreyndir,“ segir Magnús.
Magnús segir að dómsmálaráðherra verði sjálfur að svara því hvers vegna hann fer rangt með staðreyndir máls.
„Þetta er væntanlega hluti af einhverri orðræðu í kringum það að koma frumvarpi um breytingar á lögum útlendinga í gegn myndi ég halda. En auðvitað verður dómsmálaráðherra að svara því. Við getum ekki leyft æðstu ráðamönnum ríkisins að komast upp með það að fara rangt með staðreyndir í fjölmiðlum,“ segir Magnús.