Einar Oddur Sigurðsson verjandi annars mannsins sem ákærður var í hryðjuverkamálinu, telur að úrskurður Landsréttar um að sleppa tvímenningunum úr gæsluvarðhaldi sýni að mat lögreglu á mönnunum hafi hingað til verið kolrangt. Í dag felldi Landsréttur úrskurð héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir mönnunum úr gildi.
Einar segir að úrskurður Landsréttar komi í kjölfar þess að nú liggi fyrir endanleg matsgerð geðlæknis sem mat sakhæfi og almennt geðheilbrigði á mönnunum tveimur.
„Það lá fyrir bráðabirgðaniðurstaða fyrir mánuði síðan þar sem fjallað var um að þeir væru ekki metnir hættulegir á neinn hátt. En núna er þetta endanlega staðfest með formlegri matsgerð sem verður lögð fram í héraðsdómi og verður partur af þessu máli sem málsgagn,“ segir Einar og bætir við að úrskurðurinn sýnir að Landsréttur sé ósammála mati lögreglu og héraðsdóms um að mennirnir tveir uppfylli skilyrði hegningarlaga um að teljast hættulegir.
Einar segir að úrskurður Landsréttar sé vendipunktur í málinu.
„Að mínu mati dregur þetta að miklu leyti úr þessum sakargiftum á hendur mannanna. Við erum með meinta hryðjuverkamenn sem er búið að útmála og meta samkvæmt greiningadeild lögreglunnar og erlendum sérfræðingum sem stórhættulega menn sem ætluðu a fremja einhver voðaverk. En þegar Landsréttur kynnir sér gögnin þá kemst hann að þeirri niðurstöðu að þeir séu ekki hættulegir. Þetta dregur tennurnar úr málinu og sýnir einfaldlega að mat lögreglu hingað til hefur verið kolrangt,“ segir Einar.
„Það hljóta að vera uppi núna vangaveltur hjá héraðssaksóknara hvort þeir ætli að standa við þessa ákæruliði sem varða hryðjuverkin. Þetta er stórt atriði og það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni,“ segir Einar.
Fagnaðarfundir með fjölskyldum
Einar segir að hann hafi verið á leiðinni að hitta skjólstæðing sinn þegar hann fékk tilkynningu um úrskurð Landsréttar. Hann segir að þrátt fyrir mikla óvissu um framhaldið, þá sé einnig mikill léttir að þeir séu lausir úr gæsluvarðhaldi.
„Þeir gengu út á eftir mér og það var mikil gleði. Ég geri ráð fyrir fagnaðarfundum og að öllum sé gríðarlega létt, þó að það sé ákveðin óvissa enn þá. Það var fyrirséð að þeir myndu vera í varðhaldi þangað til að málið kláraðist og það hefði geta tekið nokkra mánuði,“ segir Einar.
Einar og Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars sakborningsins hafa áður gagnrýnt lengd gæsluvarðhaldsins yfir tvímenningunum. Einar segir að lögregla hafi farið of geyst í málinu og það hafi verið blásið upp úr öllu valdi.
„Allt frá upphafi hefur legið fyrir að það eru þarna tiltekin vopnalagabrot sem að þeir hafa einfaldlega gengist við. Bæði sakborningarnir og verjendurnir hafa haldið því á lofti að það yrði uppistaðan í málinu. Við höfðum ekki trú á því að það yrði yfir höfuð ákært samkvæmt þessu hryðjuverkaákvæði og það mat hefur ekkert breyst. Við teljum að niðurstaðan verði töluvert rýrari en lögregla og héraðssaksóknari lögðu upp með í upphafi,“ segir Einar.