Einar Oddur Sigurðs­son verjandi annars mannsins sem á­kærður var í hryðju­verka­málinu, telur að úr­skurður Lands­réttar um að sleppa tví­menningunum úr gæslu­varð­haldi sýni að mat lög­reglu á mönnunum hafi hingað til verið kol­rangt. Í dag felldi Lands­réttur úr­skurð héraðs­dóms um á­fram­haldandi gæslu­varð­hald yfir mönnunum úr gildi.

Einar segir að úr­skurður Lands­réttar komi í kjöl­far þess að nú liggi fyrir endan­leg mats­gerð geð­læknis sem mat sak­hæfi og al­mennt­ geð­heil­brigði á mönnunum tveimur.

„Það lá fyrir bráða­birgða­niður­staða fyrir mánuði síðan þar sem fjallað var um að þeir væru ekki metnir hættu­legir á neinn hátt. En núna er þetta endan­lega stað­fest með form­legri mats­gerð sem verður lögð fram í héraðs­dómi og verður partur af þessu máli sem máls­gagn,“ segir Einar og bætir við að úr­skurðurinn sýnir að Lands­réttur sé ó­sam­mála mati lög­reglu og héraðs­dóms um að mennirnir tveir upp­fylli skil­yrði hegningar­laga um að teljast hættu­legir.

Einar segir að úr­skurður Lands­réttar sé vendi­punktur í málinu.

„Að mínu mati dregur þetta að miklu leyti úr þessum sakar­giftum á hendur mannanna. Við erum með meinta hryðju­verka­menn sem er búið að út­mála og meta sam­kvæmt greininga­deild lög­reglunnar og er­lendum sér­fræðingum sem stór­hættu­lega menn sem ætluðu a fremja ein­hver voða­verk. En þegar Lands­réttur kynnir sér gögnin þá kemst hann að þeirri niður­stöðu að þeir séu ekki hættu­legir. Þetta dregur tennurnar úr málinu og sýnir ein­fald­lega að mat lög­reglu hingað til hefur verið kol­rangt,“ segir Einar.

„Það hljóta að vera uppi núna vanga­veltur hjá héraðs­sak­sóknara hvort þeir ætli að standa við þessa á­kæru­liði sem varða hryðju­verkin. Þetta er stórt at­riði og það verður fróð­legt að fylgjast með fram­vindunni,“ segir Einar.

Fagnaðar­fundir með fjöl­skyldum

Einar segir að hann hafi verið á leiðinni að hitta skjól­stæðing sinn þegar hann fékk til­kynningu um úr­skurð Lands­réttar. Hann segir að þrátt fyrir mikla ó­vissu um fram­haldið, þá sé einnig mikill léttir að þeir séu lausir úr gæslu­varð­haldi.

„Þeir gengu út á eftir mér og það var mikil gleði. Ég geri ráð fyrir fagnaðar­fundum og að öllum sé gríðar­lega létt, þó að það sé á­kveðin ó­vissa enn þá. Það var fyrir­séð að þeir myndu vera í varð­haldi þangað til að málið kláraðist og það hefði geta tekið nokkra mánuði,“ segir Einar.

Einar og Sveinn Andri Sveins­son, lög­maður annars sak­borningsins hafa áður gagn­rýnt lengd gæslu­varð­haldsins yfir tví­menningunum. Einar segir að lög­regla hafi farið of geyst í málinu og það hafi verið blásið upp úr öllu valdi.

„Allt frá upp­hafi hefur legið fyrir að það eru þarna til­tekin vopna­laga­brot sem að þeir hafa ein­fald­lega gengist við. Bæði sak­borningarnir og verj­endurnir hafa haldið því á lofti að það yrði uppi­staðan í málinu. Við höfðum ekki trú á því að það yrði yfir höfuð á­kært sam­kvæmt þessu hryðju­verka­á­kvæði og það mat hefur ekkert breyst. Við teljum að niður­staðan verði tölu­vert rýrari en lög­regla og héraðs­sak­sóknari lögðu upp með í upp­hafi,“ segir Einar.