Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti, er harð­orður í garð Mitch McConnell, leið­toga Repúblikana innan öldunga­deildarinnar, en í yfir­lýsingu sem Trump sendi frá sér í gær sagði hann að Demó­kratar hafi spilað McConnell „eins og fiðlu“ og bætti við að McConnell hafi ekki hags­muni þjóðarinnar í huga.

„Repúblikana­flokkurinn verður aldrei virtur eða sterkur með pólitíska „leið­toga“ eins og Mitch McConnell í farar­broddi,“ sagði Trump í bréfinu. „Hollusta hans við ó­breytta við­skipta­hætti og á­stand, auk skorts hans á pólitískri inn­sýn, visku, hæfi­leikum, og per­sónu­leika, hefur fljót­lega flutt hann frá leið­toga meiri­hlutans til leið­toga minni­hlutans, og það mun að­eins versna.“

Segir McConnell hafa „grát­beðið“ um stuðning

McConnell hlaut endur­kjör í kosningunum til öldunga­deildarinnar í Ken­tucky og mun því gegna em­bættinu í að minnsta kosti sex ár til við­bótar. Trump segist sjá eftir því að hafa stutt við McConnell en hann segir McConnell hafa „grát­beðið“ um stuðning. „Án míns stuðnings hefði McConnell tapað, og tapað illa.“

Í yfir­lýsingu Trumps stærði hann sig af því að hafa fengið fleiri at­kvæði en nokkur annar sitjandi for­seti í sögunni og að Repúblikanar hafi náð að bæta við sig sætum innan full­trúa­deildarinnar. Þá sagðist hann einn hafa „bjargað“ tólf sætum innan öldunga­deildarinnar en sagði aðila innan flokksins bera á­byrgð á því að Repúblikanar töpuðu báðum sætum sínum í Georgíu.

„Þetta var al­gjör kosningar­hörmung í Georgíu, og á­kveðnum öðrum sveiflu­ríkjum. McConnell gerði ekkert, og mun aldrei gera það sem þarf að gera til að tryggja sann­gjarnt og rétt­látt kosninga­kerfi í fram­tíðinni. Hann hefur ekki það sem þarf, hafði það aldrei og mun aldrei hafa það,“ sagði Trump.

Versnandi samband

Trump og McConnell hafa átt í erfiðu sam­bandi eftir að Trump tapaði for­seta­kosningunum síðast­liðinn nóvember en Trump hefur í­trekað haldið því fram, án sannana, að víð­tækt kosninga­svindl hafi átt sér stað í kosningunum. McConnell hefur ekki viljað taka undir það og eftir ó­eirðirnar við þing­húsið þann 6. janúar for­dæmdi McConnell Trump.

Í janúar var Trump á­kærður til em­bættis­missis fyrir að hvetja til upp­reisnar í tengslum við ó­eirðirnar við þing­húsið en hann hvatti stuðnings­menn sína til að safnast saman fyrir utan þingið til að mót­mæla úr­slitum for­seta­kosninganna. Síðast­liðinn laugar­dag var hann aftur á móti sýknaður af öldunga­deildinni en sjö þing­menn Repúblikana snerust gegn Trump.