Álfrún Auður Bjarnadóttir segir Daða Frey Pétursson, söngvara og tónlistarmann, hafa beðið hana afsökunar áður en Fréttablaðið fjallaði um ásakanir hennar gegn meðlimi Gagnamagnsins um ofbeldi. Stefán Hannesson, fyrrum meðlimur hljómsveitarinnar, steig fram í gær, gekkst við ofbeldinu og segist iðrast þess innilega.

„Árið 2013 beitti ég þá­verandi kærustu mína of­beldi og hefur hún nú stigið fram og sagt frá. Því miður var þetta ekki í fyrsta skipti sem ég varð upp­vís að slíku of­beldi en það átti sér einnig stað í mínu fyrsta sam­bandi,“ sagði Stefán í yfirlýsingu og bætti við að hann hafi leitað sér hjálpar til að takast á við vandann.

Álfrún Auður segir í nýrri færslu á Twitter að Daði Freyr hafi haft samband og beðið hana afsökunar á að hafa ekki brugðist við. Hún segist taka afsökunarbeiðni hans gilda en að henni þyki þó leiðinlegt hvað þurfti til að fá viðbrögð og hversu langan tíma það tók.

„Þótt það var leiðinlegt að það þurfti svona mikið til þess, þá geta allir gert mistök. Það mikilvægasta er þegar fólk tekur ábyrgð á því og vill líta inn á við og sjá hvað hefði mátt fara betur, og læra, sem hann gerði,“ segir Álfrún Auður en fyrr í vikunni hafði hún lýst yfir vonbrigðum með það að hafa ekki heyrt í honum og sagt að reiði hennar í málinu beindist bæði að geranda sínum og Daða Frey.